Mannvistarleifar glötuðust ekki

Oddgeir Isaksen fornleifafræðingur Minjastofnunar.
Oddgeir Isaksen fornleifafræðingur Minjastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki fundust mannvistarleifar í athugun fornleifafræðings Minjastofnunar á gossvæðinu í Fagradalsfjalli í gær, sem gera þurfti í snarhasti eftir að tekið var að gjósa. Engar minjar hafa því farið forgörðum svo vitað sé.

Hugsanlegt var talið að dys landnámsmannsins Ísólfs leyndist í Geldingadalnum. Oddgeir Isaksen fornleifafræðingur, sem fór og athugaði málið, kveðst ekki hafa fundið neinar mannvistarleifar á hryggnum þar sem þær hefðu getað verið.

Flýtti sér með þyrlu

„Það er gott að það var ekkert sem fór forgörðum þarna,“ segir Oddgeir í samtali við mbl.is. „Ég sá ekki dalinn í heild sinni áður en hann fór undir hraun, þannig að ég þori ekki að sverja fyrir að ekkert hafi farið undir, en af loftmyndum að dæma er það ólíklegt.“

Oddgeir fór með þyrlu í Geldingadal í gær í rannsóknarskyni, þar sem enn var óljóst hvort um raunverulega dys væri að ræða. Þegar hann kom á staðinn varð ljóst að svo var ekki, enda þótt það sé gefið í skyn í örnefnaskrá. Slík skjöl eru ekki óbrigðul heimild um fornleifar.

Á myndinni er hryggurinn auðkenndur, þar sem talið var að …
Á myndinni er hryggurinn auðkenndur, þar sem talið var að dys Ísólfs kynni að leynast. Engin merki fundust um hana við leit fornleifafræðings. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um leið kannaði Oddgeir afganginn af dalnum og sá ekki að þar væri nokkrar mannvistarleifar að finna. 

Ísólfsskáli helsta áhyggjuefnið 

Miðað við hraunrennslið núna gæti Geldingadalur fyllst af hrauni eftir 10-20 daga og þá er líklegt að hraunið taki stefnuna suður niður í Nátthaga. Ef það heldur enn áfram þaðan er Ísólfsskálajörðin komin í hættu og er það helsta áhyggjuefni Minjastofnunar, segir Oddgeir.

„Þar er þetta týpíska íslenska minjalandslag. Það er bæjarhóll, þar sem búið er að byggja sumarhús yfir, og svo eru sjóminjar í hrauninu og fleiri hundruð metrar af þurrkgörðum. Einnig eru landbúnaðarminjar á svæðinu; túngarðar og útihúsatóftir, sýnilegastar frá 19. öld en vissulega leynast landnámsminjar undir sverði,“ segir Oddgeir.

Ísólfsskáli er rétt sunnan við Suðurstrandarveg.
Ísólfsskáli er rétt sunnan við Suðurstrandarveg. map.is

Þar sem eldvirkni er hafin á Reykjanesskaga er óhjákvæmilegt að áhersla á skráningu fornleifa færist á svæðið. Það er sögn Oddgeirs til að búa í haginn ef frekari gos verða. Þá skiptir máli að hafa skrásett minjarnar.

Eldgos í Geldingadal á Reykjanesi.
Eldgos í Geldingadal á Reykjanesi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert