Eldfjallið Bubbi hættir ekki að gjósa

Bubbi Morthens og Ísólfur Haraldsson.
Bubbi Morthens og Ísólfur Haraldsson. Ljósmynd/Aðsend

„Ef það er eitthvert eldfjall sem hættir ekki að gjósa er það örugglega Bubbi Morthens. Það er ótrúleg öll þessi orka sem er í kringum þennan mann,“ segir Ísólfur Haraldsson, nýr umboðsmaður Bubba Morthens.

Ísólfur tók við starfinu um síðustu jól en hann hefur unnið með Bubba um langt skeið í tengslum við tónleikahald.

Bubbi greindi frá þessum tíðindum á instagramsíðu sinni á dögunum:

Kemur sífellt á óvart 

Ísólfur kemur í stað Páls Eyjólfssonar, eða Palla Papa, sem hefur staðið vaktina síðastliðin 19 ár. Spurður hvers vegna hann var ráðinn segir Ísólfur að stundum sé einfaldlega gott fyrir fólk að breyta til og það hafi verið raunin í þessu tilfelli. Vissulega séu svona mannabreytingar þó ekki einfaldar þegar menn hafi unnið svona lengi saman eins og Bubbi og Palli. 

Ísólfur er vitaskuld spenntur fyrir því að starfa með sínum nýja skjólstæðingi. „Þó að maður þekki vel til hans og sé búinn að vera mikið í kringum hann þá hefur maður í raun aldrei getað ímyndað sér hvað er í rauninni mikið í gangi í kringum einn listamann. Hann er sífellt að koma manni á óvart,“ greinir hann frá.

Nýja platan nefnist Sjálfsmynd

Bubbi er sem fyrr með mörg járn í eldinum. Vonir standa til að leikritið Níu líf, þar sem sögð er saga kappans, hefjist á nýjan leik í Borgarhúsinu í vor en þó með takmörkunum vegna Covid-19.

Útgáfa á nýrri plötu Bubba er einnig fyrirhuguð. Stefnan er að gefa hana út á afmælisdegi hans, 6. júní, og er nafnið þegar komið: Sjálfsmynd.

Bubbi Morthens.
Bubbi Morthens. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kórónuveiran setti strik í reikninginn

Ísólfur starfrækir fyrirtækið Vinir Hallarinnar, sem sér um viðburði í Bíóhöllinni á Akranesi, Hlégarði í Mosfellsbæ, auk þess sem Gamla Kaupfélagið á Skaganum, Báran brugghús og Lopapeysuballið á Írskum dögum á Akranesi eru meðal annars á könnu þess. Veisluþjónusta, tónleikar, hljóðkerfi og tónlistarfólk eru því á meðal snertiflata Vina Hallarinnar. Hefur þeim fjölgað nokkuð eftir að kórónuveiran lagði niður hefðbundið tónleikahald, eðlilega. „Meira og minna allt sem við höfum verið að vinna hefur nánast verið dautt síðan Covid byrjaði. Eitt leiddi af öðru og núna erum við farnir að vinna við fullt af öðrum hlutum,“ segir Ísólfur.

Streymistónleikar hafa einnig tekið við og hafa Helgi Björns með vinsælum þáttum sínum í Sjónvarpi Símans, sem Ísólfur hefur átt þátt í að skapa, og Bubbi Morthens með Þorláksmessutónleikum sínum og tónleikum á Valentínusardaginn sýnt að vel er hægt að ná góðum árangri á þeim vettvangi.  

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur nógan tíma fyrir kónginn

Spurður hvort hann hafi einhvern tíma fyrir kónginn sjálfan þegar hann sjálfur hefur í svona mörg horn að líta segist Ísólfur vera með góða samstarfsmenn í kringum sig sem geti tekið að sér hin ýmsu verkefni. „Þetta er ekkert bara ég. Ég er með alls konar gott fólk sem við drögum inn í samstarfið,“ segir hann.

Athygli vekur að þetta er í fyrsta sinn sem Ísólfur sinnir umboðsmennsku. Eins og áður segir hefur hann þó verið í kringum tónleikabransann í um tvo áratugi og því öðlast heilmikla reynslu í samskiptum sínum við tónlistarfólk, þar á meðal Bubba Morthens.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert