Loka gossvæðinu tímabundið

Eldgosið hefur laða fjölda manns að.
Eldgosið hefur laða fjölda manns að. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Suðurnesjum hefur ákveðið að loka gossvæðinu tímabundið, en mikið álag er núna vegna mikils fjölda á leið á gossvæðið. Segir í tilkynningu lögreglunnar að óvíst sé að svæðið verði opnað aftur í dag.

Þau bílastæði sem búið er að útbúa í grennd við gönguleiðina eru orðin full og því hefur myndast nokkurra kílómetra löng bílaröð. Bílaröðin nær alveg frá bílastæðum við Hraun alveg í gegnum Grindavíkurbæ og í átt að afleggjaranum við Bláa lónið. 

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, segist hafa farið þess á leit við lögreglu að gossvæðið verði ekki opnað aftur fyrr en í fyrramálið, en nýtt fyrirkomulag gerir ráð fyrir því að gossvæðið sé lokað frá 21 til 9. 

Þorbjörn sinnir nú slösuðum göngumanni á svæðinu en reynir eftir bestu getu að aðstoða lögreglu á svæðinu. 

„Við aðstoðum lögregluna bara við allt sem við getum aðstoðað við. Ég myndi bara ráðleggja fólki að fara í ísbúðina eða eitthvað, frekar að taka ísrúnt. Það er röð bara frá Þorbirni núna,“ segir Bogi. 

Uppfært klukkan 19:20: 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur tekið ákvörðun um að loka fyrir bílaumferð að gosstöðvunum. Ökumenn sem eru vestan við Stafholt og austan við Ísólfsskála eiga ekki möguleika á að komast inn á svæðið. Fleiri ökutæjum verður ekki hleypt inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert