Kallaði ég fram álfabölvun?

Jón Bjarki Magnússon kvikmyndagerðarmaður.
Jón Bjarki Magnússon kvikmyndagerðarmaður. Arnþór Birkisson

Enn þurfti að fresta frumsýningu á heimildarmyndinni Hálfur Álfur eftir Jón Bjarka Magnússon á dögunum vegna hertra sóttvarnaaðgerða. 

„Maður er auðvitað orðinn ýmsu vanur eftir að hafa lent í nákvæmlega því sama áður, og oftar en einu sinni,“ segir Jón Bjarki Magnússon en til stóð að frumsýna fyrstu heimildarmynd hans í fullri lengd, Hálfur Álfur, daginn eftir að samkomutakmarkanir voru hertar á dögunum. Hann lauk við gerð myndarinnar fyrir ári, svo sem fram kom í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins fyrir tveimur vikum.

„Það breytir því ekki að það var auðvitað töluvert áfall að sjá að ekkert yrði af frumsýningu sem við höfðum lagt mikla vinnu í að undirbúa vikurnar á undan. Það var þó bót í máli að við náðum að halda lokaða hátíðarsýningu kvöldið áður eins og fyrirhugað hafði verið en þangað komu vinir, velunnarar og aðrir sem komið hafa að gerð myndarinnar. Það var yndislegt að eiga stund með þeim í bíósalnum þótt aðstæður væru vissulega ekki eins og best verður á kosið. Þannig að maður getur þó alla vega glaðst yfir því.

Úr myndinni Hálfur Álfur.
Úr myndinni Hálfur Álfur.


Köstuðu steinum í álfastein

Spurður hvort álög hvíli á myndinni svarar Jón Bjarki: „Það má auðvitað segja að það hvíli ákveðin álög á heiminum þessi misserin. Það hvort þau séu að bitna harkalegar á okkur verða aðrir en ég að dæma um. Nú hef ég ekki talið mig álfatrúar til þessa, en í myndinni segir afi frá því hvernig hann og vinir hans köstuðu steinum í álfastein norður á Ströndum þrátt fyrir að amma hans hefði harðbannað þeim það. Nú fórum við pabbi minn, Magnús H. Traustason, að þessum steini við tökur myndarinnar og tókum upp á því í stráksskap okkar að gera eins og drengirnir forðum. Eftir því sem fleiri frumsýningar verða Covid að bráð verður mér æ oftar hugsað til þessa atviks og velti fyrir mér hvort okkur hafi mögulega tekist að reita álfana til reiði og þar með kallað fram einhvers konar álfabölvun?“

Að sögn Jóns Bjarka bíða aðstandendur myndarinnar færis þar til rofar til en „myndin fer í almennar sýningar í Bíó Paradís um leið og Þórólfur, álfar og aðrar vættir leyfa. Við pabbi erum farnir að taka það til alvarlegrar skoðunar að þeysast norður í Árneshrepp og freista þess að friða vini okkar í steininum. Kannski vilja þeir einfaldlega að frumsýningin fari fram í álfheimum fremur en mannheimum? Ég er viss um að þeir yrðu fljótir að fyrirgefa okkur steinakastið ef við myndum varpa álfinum hálfa á steininn. Það getur alla vega ekki sakað að reyna.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »