Frjálst að ljúka sóttkví annars staðar

Öllum sem dvelja í sóttvarnahúsum verður gerð grein fyrir því …
Öllum sem dvelja í sóttvarnahúsum verður gerð grein fyrir því að þeir megi ljúka sóttkvínni annars staðar, sé aðstaðan viðunandi. mbl.is/Árni Sæberg

Öllum sem dvelja á sóttkvíarhótelum verður gerð grein fyrir því að þeim sé frjálst að ljúka sóttkví annars staðar, hafi þeir viðunandi aðstöðu til þess.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu, sem fer nú yfir úrskurðinn.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurði í dag þess efnis að ákvæði reglugerðar heilbrigðisráðherra, þess efnis að farþegar frá hááhættusvæðum skuli sæta sóttkví í sóttkvíarhúsi, skorti lagastoð.

„Eigi að síður biðla sóttvarnayfirvöld til gesta að ljúka sóttkví á sóttkvíarhótelinu, enda er það besta leiðin til að draga úr útbreiðslu Covid-19-sjúkdómsins,“ segir í tilkynningunni, sem birt er á vef Stjórnarráðsins.

Heilbrigðisráðherra mun í samráði við sóttvarnalækni skoða hvaða leið verður farin til að lágmarka áhættu á að smit berist inn í landið og verður greint frá viðbrögðum á næstu dögum.

mbl.is