Andlát tilkynnt eftir AstraZeneca-bólusetningu

Engin tengsl bólusetningar og andláta hafa verið sönnuð.
Engin tengsl bólusetningar og andláta hafa verið sönnuð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eitt andlát hefur nú verið tilkynnt hér á landi í kjölfar bólusetningar með bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19. Áður höfðu einungis borist tilkynningar um andlát í kjölfar bólusetningar með bóluefni Pfizer/BioNTech. Alls hafa fimmtán andlát í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19 verið tilkynnt en ekkert hefur verið sannað um orsakasamhengi á milli dauðsfalla og bólusetninga.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að andlátið sem tilkynnt var í kjölfar bólusetningar með efni AstraZeneca sé nú til skoðunar en öll tilvik mögulegra alvarlegra aukaverkana eru skoðuð sérstaklega.

„Það er farið yfir þau mjög nákvæmlega,“ segir Rúna.

Hver tilkynning vegur þungt í litlu þýði

Lyfjastofnun hafa borist 634 tilkynningar vegna mögulegra aukaverkana í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Flestar tilkynninganna, eða 257, eru vegna bóluefnis AstraZeneca og næstflestar, eða 220, vegna bóluefnis Pfizer/BioNTech. Þrátt fyrir það hafa töluvert fleiri verið bólusettir með bóluefni Pfizer/BioNTech en bóluefni AstraZeneca.

Spurð um ástæður þessa segir Rúna:

„Hver aukaverkanatilkynning vegur svo mikið vegna þess að þetta er svo lítið þýði. Það er því erfitt að fara að segja eitthvað um tölfræði um þetta. Það var mikið verið að fylgjast með aukaverkunum í kjölfar bólusetningar með efni AstraZeneca. Svo gengu í gildi ný lyfjalög fyrsta janúar þar sem heilbrigðisstarfsmönnum ber að tilkynna aukaverkanir og við fengum þær náttúrlega tilkynntar.“

Hlutfallslega flestar tilkynningar vegna efnis Moderna

52.634 einstaklingar hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn Covid-19 en stefnt er að því að 280.000 manns hér á landi fái bólusetningu. Um 31.000 manns hafa fengið bóluefni Pfizer/BioNTech, um 18.000 manns hafa fengið bóluefni AstraZeneca og 4.000 manns hafa fengið bóluefni Moderna. 157 tilkynningar um mögulegar aukaverkanir hafa borist vegna bóluefnis Moderna og eru tilkynningar um aukaverkanir vegna efnisins því hlutfallslega flestar. Engin tilkynning um andlát í kjölfar bólusetningar með bóluefni Moderna hefur borist.

mbl.is