2.500 sumarstörf fyrir námsmenn

mbl.is/Arnþór

Stjórnvöld ætla að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar og munu verja tæpum 2,4 milljörðum kr. í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Markmiðið er að með átakinu verði til um 2.500 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, í samvinnu við opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök, að því er segir í tilkynningu. 

Fram kemur, að hverjum nýjum námsmanni sem ráðinn sé inn með úrræðinu fylgi styrkur sem nemi fullum dagvinnulaunum samkvæmt gildandi kjarasamningum, en mest að hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, allt að 472 þúsund kr. á mánuði auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ráðningartímabilið er allt að tveir og hálfur mánuður.

Þá verður fylgst náið með framvindu þessa verkefnis til þess að tryggja að námsmenn verði ekki án atvinnu og framfærslu í sumar, segir enn fremur. 

mbl.is