Náttúran er óútreiknanleg og ófyrirsjáanleg

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, segir nýju sprunguna sem opnaðist í nótt vera innan þess hættusvæðis sem kynnt var á fundi vísindaráðs fyrr í vikunni.

Það er svæði þar sem fólk getur verið í bráðri hættu vegna skyndilegra atburða sem geta orðið á gosstöðvum. Innan hættusvæðisins er allra mesta hættan á opnun fleiri gossprungna án fyrirvara og því getur fylgt skyndilegt og hratt hraunflæði sem erfitt er að forðast. Utan þessa svæðis eru einnig aðrar hættur sem fylgja framrás hrauns og uppsöfnunar gass.

Vefmyndavél mbl.is af gosstöðvunum í Geldingadölum náði myndum af því þegar ný sprunga opnaðist þar í nótt. Sprungan sem virðist vera nokkuð lífleg og kraftmikil opnaðist kl. 03:13 en það var Hallur Már Hallsson sem tók myndskeiðið saman. 

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, hefur í nægu að …
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, hefur í nægu að snúast þegar bæði eldgos er á Reykjanesi og farsótt geisar í landinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn Víðis er þetta í samræmi við þá þróun sem vísindamenn hafa sagt til um og kom fram á fundi vísindaráðs. Þær þrjár sprungur sem hafa opnast í þessari viku eru allar innan hættukortsins. 

„Við megum aldrei gleyma því að þetta er náttúran sem við erum að fylgjast með og hún er óútreiknanleg og ófyrirsjáanleg. Þrátt fyrir að það sé búið að setja einhverja mynd á þetta núna þá eru breytingarnar hraðar og munu eflaust koma okkur á óvart áfram. Því skiptir gríðarlega miklu máli að allir fari afskaplega varlega sem ætla að berja þetta eldgos augum,“ segir Víðir í samtali við mbl.is. 

Á kortinu má sjá drög að nýrri gönguleið austan við …
Á kortinu má sjá drög að nýrri gönguleið austan við hættusvæðið. Facebook-síða jarðvísindastofnunar HÍ

Lögreglan á Suðurnesjum opnaði fyrir aðgengi fólks að gossvæðinu á hádegi en það verður vaktað af lögreglu og björgunarsveitum til miðnættis. Lokað verður inn á svæðið klukkan 21, rýming hefst klukkan 23 og verður lokið fyrir miðnætti.

Víðir tekur fram að fólk sem fer að gosinu er alltaf á eigin ábyrgð. Viðbragðsaðilar séu að leggja sitt af mörkum til þess að auka öryggi þess og auðvitað sé mjög gott að það sé hægt enn þá að berja eldgosið augum en auðvitað séu allir á eigin ábyrgð og verði að fylgja leiðbeiningum. Hann ítrekar þau tilmæli til fólks að vera vel klætt og gæta að gasmengun. 

Veðurspá og gasspá fyrir gosstöðvarnar 

Suðaustan og sunnan 5-10 m/s á gosstöðvunum í dag og snjókoma eða slydda með köflum síðdegis. Hiti nálægt frostmarki. Gasmengun getur því borist yfir byggð á norðanverðu Reykjanesi, frá Vatnsleysuströnd og vestur á Hafnir. Í kvöld verður vindur suðvestlægari um tíma, og gas getur þá einnig borist yfir höfuðborgarsvæðið og byggðarlög þar í grennd.

Sunnan 5-10 og rigning í fyrramálið, en snýst í suðaustan 8-13 eftir hádegi. Hiti 2 til 5 stig. Gasmengunina ætti því að leggja yfir Vatnsleysuströnd í fyrstu, en síðdegis yfir svæðið frá Vogum og vestur að Höfnum. Snýst í norðaustan 5-10 og styttir upp annað kvöld, og mengunin berst þá í átt til Grindavíkur.

Náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa hér merkt inn nýju sprunguna sem …
Náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa hér merkt inn nýju sprunguna sem opnaðist í nótt. Skjáskot úr vefmyndavél mbl.is

Á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands kemur fram að hraunrennslið er lítið í samanburði við flest önnur gos en tekið sérstaklega fram að þetta hafi verið ritað 8. apríl. 

Meðalrennslið fyrstu 20 dagana er um 5 m3/s, og í samanburði við flest önnur gos er rennslið tiltölulega stöðugt. 

Meðalrennslið fyrstu 20 dagana er um þriðjungur þess sem kom að meðaltali upp fyrstu 10 dagana á Fimmvörðuhálsi vorið 2010, sem var þó lítið gos. Þá er rennslið í Geldingadölum aðeins 2% af því sem var í Holuhrauni fyrstu vikur gossins og 5% af meðalhraunrennsli þá sex mánuði sem það gos stóð. Rennslið er svipað og var að meðaltali í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967.  

Ekki er hægt að segja um nú hve lengi gosið muni standa, en þróun hraunrennslis með tíma mun gefa vísbendingar þegar fram í sækir.  

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert