Aukagjöld lækna „langt umfram verðlagsþróun“

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Sérgreinalæknar hafa fengið fjölmargar verðlagshækkanir frá því síðasti samningur þeirra við Sjúkratryggingar Íslands var gerður. Yfirlýsingar formanns Læknafélags Reykjavíkur um annað standast því ekki skoðun að sögn Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Sjúkratryggingar sendu frá sér í dag.

Málefni sérgreinalækna hafa verið í eldlínunni í vikunni. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur kynnt áform um breytingu á reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við SÍ. Felur breytingin meðal annars í sér að sjúklingar þeirra lækna sem rukka aukakostnað samkvæmt gjaldskrá muni ekki njóta kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands. Samningar hafa verið lausir frá 2018.

Í yfirlýsingu Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að greiðslur ríkisins til sérgreinalækna hafi fylgt verðlagsþróun til ársins 2021 frá árslokum 2018, þegar síðasti samningur rann úr gildi. „Sá samningur tók gildi 2014 og fól einnig í sér allt að 15% hækkun umfram verðlag. Allan samningstímann var gjaldskrá samningsins verðbætt tvisvar á ári og eftir að hann rann út hefur gjaldskráin áfram verið verðbætt, allt fram til ársins 2021, bæði með tilliti til launaþróunar og þróunar rekstrarkostnaðar. Verðbæturnar hafa tekið tillit til gengisþróunar auk þess sem ákveðinn efniskostnaður sérgreinalækna er greiddur samkvæmt raunkostnaði, þ.e. á grundvelli framlagðra reikninga. Sérgreinalæknar hafa því fengið fjölmargar verðlagshækkanir frá því síðasti samningur var gerður. Yfirlýsingar formanns Læknafélags Reykjavíkur hvað þetta varðar standast því ekki skoðun,“ segir í yfirlýsingunni. 

Aukagjöld hafi vaxið síðustu ár

Þar er enn fremur rakið að strax eftir að síðasti samningur rann út, í ársbyrjun 2019, hafi farið að bera á því að sérgreinalæknar innheimtu aukagjöld af sjúklingum umfram það sem þeim ber að greiða samkvæmt gjaldskrá hins opinbera. „Þessi aukagjöld hafa farið vaxandi á síðustu tveimur árum og eru langt umfram verðlagsþróun. Sérgreinalæknar hafa ekki birt nein gögn sem sýna fram á að aukagjöldin tengist hækkunum á kostnaði þeirra umfram verðlag.“

Að síðustu er þess getið að SÍ vilji ná sem fyrst samningum við sérgreinalækna og fyrirtæki þeirra. „SÍ treysta á gott samstarf við sérgreinalækna, hér eftir sem hingað til. Það liggur hins vegar fyrir að sérgreinalæknar og fyrirtæki þeirra þurfa að starfa innan sama ramma og allir aðrir sem koma að veitingu fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Sá rammi er markaður m.a. af heilbrigðislögum, fjárlögum og gildandi heilbrigðisstefnu. Það er á ábyrgð beggja samningsaðila að ná samningum sem tryggja að fjármagn sé vel nýtt og að þeir njóti þjónustunnar sem mest þurfa á henni að halda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert