Bjór seldur á ný á Snorrabraut og BBQ í kaupbæti

Aðstandendur RVK Brewing og Vínstúkunnar Tíu sopa fyrir framan húsnæðið …
Aðstandendur RVK Brewing og Vínstúkunnar Tíu sopa fyrir framan húsnæðið á Snorrabraut.

Það eru ekki bara sorgartíðindi sem berast úr veitingabransanum í miðborg Reykjavíkur. Í sumar verður hægt að gæða sér á BBQ-mat og skola honum niður með hágæða handverksbjór í flottu umhverfi á Snorrabraut.

Aðstandendur RVK Brewing hafa tryggt sér húsnæði veitingastaðarins Roadhouse við Snorrabraut sem var einn þeirra sem lögðu upp laupana í kórónuveirufaraldrinum. Í húsnæðinu var á árum áður rekin myndbandaleigan og söluturninn Ríkið. Hlaut hún nafn sitt af verslun ÁTVR sem var í húsnæðinu fram til ársins 1990. Þarna verður nú opnuð bruggstofa og reiddur fram gauramatur af bestu gerð.

„Við fengum í lið með okkur öðlingana og reynsluboltana í Vínstúkunni Tíu sopum til að útfæra og innrétta Tap Room og BBQ á besta stað í bænum þar sem áður var veitingastaðurinn Roadhouse,“ segir í facebookfærslu RVK Brewing.

„Héðan er aðeins 10 mínútna labb í Skipholtið. Bjórinn á nýju Bruggstofunni verður því alveg jafn ferskur, bara miklu fleiri kranar og miklu meira pláss fyrir skemmtilegt fólk.

Síðan ætlum við að bjóða upp á alvöru barbecue. Aldeilis ekta low and slow honkítonk BBQ útbúið af ástríðufullum snillingum sem eru aldir upp á bestu veitingastöðum borgarinnar.“  

mbl.is