„Algjörlega vilji löggjafans“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að með frumvarpinu muni stjórnvöld tryggja …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að með frumvarpinu muni stjórnvöld tryggja aðgerðum fulla lagastoð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra býst við stuðningi þingsins við frumvarp sem ríkisstjórnin leggur nú fram, svo heimilt verði að skikka skilgreinda hópa í sóttvarnahús og banna nauðsynjalaus ferðalög frá ákveðnum áhættusvæðum. 

Í ljósi úrskurðarins sem féll í héraðsdómi nú í apríl, telur þú að lagastoðin sé til staðar, fari einhver með málið fyrir dóm?

„Ég held að það frumvarp sem við erum að leggja fram núna sé bara mjög skýrt. Og taki allan vafa algjörlega af. Ég held það hafi stuðning þingsins og hef þar væntingar um, þá sé þetta bara algjörlega vilji löggjafans,“ segir Katrín.

Aðgerðirnar hafa verið ræddar fram og til baka á fundum ríkisstjórnarinnar og segir Katrín að markmiðin séu skýr, aðgerðirnar séu til þess fallnar að draga úr áhættu á landamærunum með þrepaskiptri skyldu í sóttvarnahús.

Þar sem ný­gengið er 750 á hverja 100 þúsund íbúa verður al­menna regl­an að ferðamenn fari í sótt­varna­hús en hægt verður að sækja um und­anþágu þess efn­is.

Til þess að fá undanþágu þarf ferðamaður að geta sýnt fram á að hann geti haldið sóttkví við viðunandi aðstæður og fá heilbrigðisyfirvöld þannig nokkuð rúmt svigrúm til þess að meta hvort einstaklingur sé skyldaður til þess að dvelja í sóttvarnahúsi.

Afléttingaráætlun kynnt á næstu dögum 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun á næstu dögum kynna afléttingaráætlun stjórnvalda.

„Þar munum við tvinna saman áfanga í bólusetningum og þá væntanlega afléttingar á sóttvarnaaðgerðum sem haldast þá í hendur,“ segir hún og bætir við að slíkt sé auðvitað ávallt með fyrirvara um mat á stöðu faraldursins hverju sinnni.

Frumvarpi ríkisstjórnarinnar um hertar aðgerðir á landamærum verður dreift til alþingismanna í kvöld en í skoðanakönnunum hefur komið fram að Sjálfstæðismenn séu líklegir til þess að styðja ekki lagasetninguna. Svandís býst við því að aðgerðirnar hafi meirihlutastuðning innan þingsins:

„Þetta mál er þess eðlis að við væntum þess að það fái hraða og góða afgreiðslu í þinginu. Sem betur fer hefur það verið þannig í þessari baráttu við faraldurinn að það hefur verið samstaða í þinginu við aðgerðirnar og traust til okkar góða þríeykis í þessum efnum. Ég vænti þess að svo verði áfram og að fólk taki afstöðu til þessara mála á málefnalegum grunni.“

„Ætti að reynast auðvelt í framkvæmd“

Þá kveður fumvarpið einnig á um heimild dómsmálaráðherra til að banna ónauðsynlegar ferðir frá þeim löndum þar sem smit eru yfir þúsund á hverja hundrað þúsund íbúa en í dag falla fjögur lönd í Evrópu þar undir.

„Þessu höfum við beint utan Schengen til margra mánaða og ætti því að reynast auðvelt í framkvæmd og takmarkar þá að einhverju leyti ferðir hingað til lands frá þessum löndum á meðan smitin eru með þessum hætti,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Ferðir Íslendinga til síns heima munu ekki falla undir nauðsynjalaus ferðalög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka