Rauf bæði sóttkví og einangrun

Skimun vegna Covid-19 fer fram á Suðurlandsbraut.
Skimun vegna Covid-19 fer fram á Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Smitin í leikskólanum Jörfa eru rakin til einstaklings sem fór óvarlega í sóttkví og sinnti ekki einangrun. Maðurinn er nú í sóttvarnahúsi og hefur verið þar síðan 12. apríl eftir að héraðsdómari féllst á kröfu sóttvarnalæknis um að manninum yrði gert að dvelja þar í einangrun. Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir það í samtali við mbl.is. 

Samkvæmt því sem Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakn­ing­ar­t­eym­is al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra og embætt­is land­lækn­is, sagði í samtali við blaðamann mbl.is fyrr í vikunni eru tvö af­brigði af kór­ónu­veirunni ráðandi í þeim smit­um sem hafa verið greind hér á landi und­an­farna daga. Um er að ræða tvö af­brigði veirunn­ar sem fyrst greind­ist í Bretlandi. Í báðum til­vik­um tengj­ast smit­in ein­stak­ling­um sem komu hingað til lands.

Smitið á Jörfa teng­ist ein­stak­lingi sem kom til lands­ins skömmu fyr­ir mánaðamót en viðkom­andi starfar ekki á leik­skól­an­um held­ur ein­stak­ling­ur sem fór óvar­lega með þess­um af­leiðing­um – að yfir 100 fjöl­skyld­ur eru í sótt­kví og mörg smit. Nú eru á annað hundrað fjölskyldur í sóttkví vegna smitaðs barns í Álftamýrarskóla en það smit er rakið til Jörfa. Jafnframt þurftu 50 nemendur og starfsmenn Sæmundarskóla að fara í sóttkví vegna smits sem rakið er til leikskólans. 

Guðmundur Pétur staðfestir að viðkomandi einstaklingur hafi kært úrskurð en héraðsdómari fallist á kröfugerð sóttvarnalæknis um að maðurinn ætti að vistast í einangrun í sóttvarnahúsi.

Málið kom til kasta lögreglunnar 8. apríl en lögreglan hefur ekki nákvæmar upplýsingar um hvenær maðurinn kom til landsins en hann er Pólverji búsettur hér á landi. 

Maðurinn hefur ekki verið yfirheyrður vegna málsins þar sem hann er veikur af Covid-19 og í einangrun og sóttvarnabrot hans ekki komin til ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Samkvæmt heimildum mbl.is er sá, sem talinn er hafa farið óvarlega í sóttkví og smit tengd fisk­vinnsl­unni Íslensku sjáv­ar­fangi má rekja til, í einangrun og hefur verið það allt frá því hann greindist smitaður af Covid-19. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert