Gígurinn dregur inn andann á milli stróka

Gosið tók að breyta um hegðun aðfaranótt sunnudags.
Gosið tók að breyta um hegðun aðfaranótt sunnudags. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er magnað að sjá hvernig gígurinn andar,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Búi Baldvinsson í samtali við mbl.is.

Á einni klukkustund, upp úr miðnætti í fyrrinótt, tók hann upp einn ramma af eldgosinu fyrir hverjar tíu sekúndur sem liðu.

Með því að skeyta römmunum saman í samfellt myndskeið má sjá hvernig hlé verða í sífellu á gosinu áður en gígurinn tekur til við að spúa hrauni á ný.

Kerfið fer að hlaða í næsta skot

Gosið tók að breyta um hegðun aðfaranótt síðastliðins sunnudags. Fram að því hafði gosvirknin verið mjög stöðug. Þá fór virknin að detta niður um stund og hófst svo af miklu meiri krafti en áður hafði sést. Sú er enn raunin nú.

„Við höfum líka verið að hugsa um hvernig Þríhnúkagígur er,“ sagði dr. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og rannsóknarprófessor við HÍ, í samtali við Morgunblaðið á þriðjudag.

„Mögulega erum við komin með geymi undir gígnum, eins konar hrauntjörn. Gígurinn er stútur á tjörninni og minni en hún að ummáli. Heit kvikan kemur upp um botninn og er full af gasi. Kvikan efst er aðeins kaldari og hefur losnað við mikið gas. Svo fáum við iðustreymi sem kemur heitu gasríku kvikunni aftur af stað upp,“ sagði Ármann.

„Þegar hún fer að sjóða myndast öfug þrýstibylgja niður, kerfið afgasast og hleypir upp kvikustrókunum. Strókarnir standa á meðan nýja kvikan afgasast. Að því loknu dettur kvikustrókurinn niður og kerfið fer að hlaða í næsta skot.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert