Manninum sagt að fara heim og hann hlýddi

Tilkynnt var til lögreglu um innbrot bæði í Vestur- og Austurbænum síðdegis í gær og eru málin í rannsókn lögreglu. Eins var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í nótt. Eitthvað var um óhöpp í umferðinni í gærkvöldi, þar á meðal datt ölvaður maður af rafmagnshlaupahjóli og ökumaður vörubíls sem ók á ljósastaur en stoppaði ekki. Lögregla stöðvaði hann skömmu síðar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Skömmu fyrir kvöldmat var lögreglu tilkynnt um ölvaðan mann á ráfi. Hún sagði manninum að fara heim til sín og hlýddi hann lögreglunni og fór heim. 

Sá sem datt af hlaupahjólinu var talsvert ölvaður en var svo gott sem ekkert slasaður og vildi enga aðstoð lögreglu samkvæmt því sem fram kemur í dagbókinni. 

Lögreglu var tilkynnt umferðarslys í gærkvöldi en samkvæmt dagbók lögreglu var um minniháttar vespuslys að ræða og ætluðu forráðamenn ungmennis sem lenti í því að gera ráðstafanir. Ekki kemur fram í dagbókinni í hverju þær ráðstafanir felast. 

Síðdegis var síðan tilkynnt umferðaróhapp á höfuðborgarsvæðinu en það var minniháttar og engin slys á fólki.

Einn þeirra sem lögreglan stöðvaði var undir  áhrifum fíkniefna undir stýri. Hann er einnig án ökuréttinda. Sá var látinn laus að loknu hefðbundnu ferli við slíkar aðstæður. Tveir aðrir ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni, einnig undir áhrifum fíkniefna.

Sjúkraflutningamenn óskuðu eftir aðstoð lögreglu skömmu fyrir klukkan 23 í gærkvöldi þar sem ölvaður maður hafði veist að þeim. Hann var orðinn rólegur þegar lögregla kom á staðinn og þáði aðstoð. Ekki þörf á frekari aðkomu lögreglu.

Tilkynnt var um eld í runna í Austurbænum í nótt en íbúi á svæðinu var að ljúka slökkvistarfi þegar lögregla kom á vettvang.

Um átta í gærkvöldi var lögregla kölluð til vegna umferðaróhapps þar sem bifreið og bifhjól lentu saman. Meiðsli minniháttar og ökumaður bifhjólsins ætlaði sjálfur að leita á bráðamóttöku Landspítalans. 

Tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir þar sem maður var að lýsa inn í bifreiðir á ellefta tímanum í gærkvöldi. Maðurinn farinn þegar lögregla kom á vettvang skömmu síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert