„Athyglisvert“ klístur berst til Grindavíkur

Gjóskukornin eru gaskennd og nokkuð létt, en klístruð viðkomu.
Gjóskukornin eru gaskennd og nokkuð létt, en klístruð viðkomu. Ljósmynd/Teresa Bangsa

Gjóskukorn úr eldgosinu við Fagradalsfjall hafa borist alla leið til Grindavíkur. Kornin eru gaskennd og því einstaklega létt og geta borist um langan veg.

Teresa Bangsa, íbúi í Grindavík, er ein þeirra sem orðið hefur var við kornin en þeim rigndi niður á bílinn hennar fyrr í dag. Teresa segir að kornin séu klístruð viðkomu og ekki hafi þýtt annað en að tína þau af bílnum því ef reynt er að skola þau af skilur það eftir sig rispur.

Margir bæjarbúar hafa vakið athygli á kornunum á samfélagmiðlum, en auk þeirra hefur einnig orðið vart við svokölluð nornahár í bænum.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir athyglisvert að kornin hafi borist alla til Grindavíkur þótt það sé ekki til marks um neinar eðlisbreytingar í eldgosinu. „Gígurinn er aðallega að búa til hraun en síðan eru þessir kvikustrókar þar sem kvikan tætist í sundur og hluti hennar verður svona,“ segir Magnús Tumi og bætir við að svo virðist sem gígurinn sé farinn að búa til meira af þessu.

Á myndinni, sem er úr vefmyndavél almannavarna, má sjá dökkan …
Á myndinni, sem er úr vefmyndavél almannavarna, má sjá dökkan gjóskumökkinn sem getur borist um langan veg. Ljósmynd/Almannavarnir

Gjóskukorn sem þessi eru algengur fylgifiskur gosa, en til þess að þau berist svo langa leið þurfi gosstrókurinn að vera nokkuð hár og vindur mikill. Gosstrókurinn í Fagradalsfjalli hefur náð allt að 300 metra yfir gíginn, sem gerir um 500 metra yfir sjávarmáli.

Magnús Tumi bendir á að gjóskukornin komi heim og saman við myndir sem náðust úr vefmyndavél almannavarna fyrr í dag en þar má sjá dökkan gjóskumökkinn stíga til himins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert