„Miðhálendið má ekki verða yfirfall“

Jeppar á 38 til 46 tommu dekkjum ösla vatnið við …
Jeppar á 38 til 46 tommu dekkjum ösla vatnið við Landmannalaugar. Árni Sæberg

„Við trúum því að almenningur sem þekkir hálendið séu virkustu náttúruverðirnir. Ef við leyfum næstu kynslóðum að ferðast með okkur verði þær bestu náttúruverðir framtíðarinnar,“ sagði Snorri Ingimarsson, sem talaði fyrr hönd ferðaklúbbsins 4x4, á málþingi um þjóðvegi á hálendinu á vegum Vegagerðarinnar í morgun. 

Þar kynntu ólíkir hagsmunahópar sýn sína á framtíðarfyrirkomulag vega á hálendi Íslands fyrir Vegagerðinni. Vegagerðin hefur það hlutverk, samkvæmt núgildandi samgönguáætlun, að móta stefnu um hönnun vega á hálendi Íslands í samræmi við áherslur í landsskipulagsstefnu. 

Eins kom fram í áherslum ferðaklúbbsins að standa ætti vörð um ferðamenningu Íslands þar sem öræfastemmningin er varðveitt og torfarnar slóðir verði áfram til. 

„Við teljum að miðhálendið megi alls ekki verða yfirfall massatúrisma. Því miður hefur mér aðeins fundist löngun til þess að nota það þannig,“ sagði Snorri einnig. 

Samhljómur var á meðal margra hagsmunahópa um að flokkun vega sé ábótavant á hálendinu, en ólíkar áherslur á hversu mikil uppbygging eigi að vera á mannvirkjum, þar með vegum, þar. 

Vilja lögvernda hugtakið jeppi 

Fram kom í máli ferðaklúbbsins 4x4 að ekki er vilji í félagsskap hans til að fækka slóðum á hálendinu og kalla eftir nánari vegflokkun á torleiðum eða svokölluðum F3-vegum. 

„Við þurfum að taka á skilgreiningu ökutækja. Það þekkja allir frasann úr útvarpi, aðeins fært jeppum og stærri ökutækjum. Þennan frasa, sem allir skildu einu sinni, það er búið að gera hann óskiljanlegan af hálfu bílasölumanna sem eru farnir að kalla fólksbíla jeppa og sportjeppa,“ sagði Snorri. 

„Við viljum bara lögvernda hugtakið jeppi,“ bætti Snorri við og sagði það mögulegt lagalega ef vilji væri fyrir hendi. 

Sjá má málstofuna í heild sinni hér: 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert