Ná að kjarnyrða hvað ME er

ME félag Íslands gaf út teikningar í tilefni dagsins.
ME félag Íslands gaf út teikningar í tilefni dagsins. Ljósmynd/Aðsend

Í dag er alþjóðlegi dagur vitundarvakningar um ME sjúkdóminn og hefur ME félag Íslands því gefið út myndband til fræðslu um sjúkdóminn. „Með myndbandinu náðum við að kjarnyrða hvað ME er,“ segir Guðrún Sæmundsdóttir formaður félagsins en sjúkdómurinn leiðir til þess að líkaminn framleiðir ekki lengur næga orku.

Árlega á þessum degi eru ME félög um allan heim og fólk með ME að vekja vitund á alvarleika sjúkdómsins og skorti á fræðslu til lækna og heilbrigðisstarfsfólks. Öll vitundarvakning hérlendis er rafræn í tilefni dagsins. Líkt og áður sagði gaf félagið út í dag myndband sem Bríet Davíðsdóttir myndlistarkona teiknaði, með því markmiði að sýna hvernig lífið með ME sé fyrir fólk. Einnig gaf félagið út teikningar með stuttum skilaboðum.

Sjúkdómurinn leiðir til þess að líkaminn framleiðir ekki lengur næga …
Sjúkdómurinn leiðir til þess að líkaminn framleiðir ekki lengur næga orku. Ljósmynd/Aðsend

Covid sjúklingar í áhættuhópi

Einkennandi fyrir sjúkdóminn er að líkamleg áreynsla og andlegt álag hefur neikvæð áhrif á líðan fólks með ME. Þá er fólk sem fær Covid í áhættuhóp að fá ME.

„Mjög mikilvægt er að fólk fái greiningu snemma og viðeigandi meðferð umleið,“ segir Guðrún og leggur áherslu á að lögum samkvæmt eiga einstaklingar rétt á réttri sjúkdómsgreiningu. Einkenni eru m.a. orkuleysi, þrekleysi, vanvirk hugsun við álag, lélegur svefn og streita ásamt verkjum í vöðvum og liðum.

Guðrún Sæmundsdóttir, formaður ME samtakanna á Íslandi.
Guðrún Sæmundsdóttir, formaður ME samtakanna á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Áætla má að um eitt þúsund manns hér á landi séu með ME. „Fólk misskilur oft að þetta sé það sama og kulnun, þunglyndi, vefjagigt eða eitthvað slíkt. Meðferð við ME er hins vegar allt önnur,“ segir Guðrún.

„Við leggjum mikla áherslu á að virkniaðlögun sé kennd,“ segir og Guðrún og bendir á að hún hafi aukið lífsgæði margra. Ekki er til bein lækning við sjúkdóminum en Guðrún segir áherslu vera lagða á rágjöf til þess að fyrirbyggja köst. Með deginum í dag vonar félagið m.a. að heilbrigðisstarfsfólk fái greinargóða þekkingu á eðli sjúkdómsins og auknar rannsóknir á honum.

Vefsíðu ME félagsins má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert