Aðstoðarforstjórinn hærra launaður en forstjórinn

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstoðarforstjóri Samkeppniseftirlitsins var með hærri heildarlaun á síðasta ári en forstjóri eftirlitsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins.

Gunnar spurði út í fjölda atriða sem varða starfsemi stofnunarinnar, meðal annars fjölda úrskurða um markaðsráðandi stöðu fyrirtækja og hvaða forsendur séu notaðar til að meta slíkt. Í svarinu er vísað til samkeppnislaga til að svara spurningunni auk ákvarðana eftirlitsins þegar komist hefur verið að niðurstöðu um brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, frá árinu 2005 að telja. Er um að ræða 33 skipti í það heila.

Þá er einnig svarað spurningum varðandi verktakagreiðslur eftirlitsins í fyrra og launagjöld þess. Þar á meðal er spurning Gunnars um launakjör Páls Gunnars Pálssonar forstjóra og Ásgeirs Einarssonar aðstoðarforstjóra.

Kemur fram í svari ráðherra að heildarlaun forstjóra í fyrra hafi verið 20.509.557, en engin hlunnindi fylgi starfinu önnur en að hann fær greiddan kostnað vegna farsíma og nets. Aðstoðarforstjóri eftirlitsins var hins vegar með 21.183.450 krónur í heildarlaun í fyrra og fær hann jafnframt greiddan kostnað vegna farsíma.

mbl.is