Magnað fjölskyldudrama

Lilja segist haga vinnu sinni svo að hún nái að vinna eina skáldsögu á ári og handrit að fjórum til fimm sjónvarpsþáttum. „Það er mikill blómi í því og allar þessar streymisveitur hafa kallað fram eftirspurn og náttúrlega covidið gerði það að verkum að það er komið svona það sem er kallað „content gap“, það vantar efni vegna þess að það var lítið framleitt meðan á faraldrinum stóð. Það er því mikið að fara í framleiðslu og mikið að gerast í því.

Þetta er annað ferli, það er svo ofboðslega löng tímalína, það er mjög erfitt fyrir þolinmæðina, það reynir á, en ég er að skrifa sjónvarpsútgáfu af Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness ásamt Baltasar Kormáki. Við erum reyndar búin að vera að dúlla við það lengi og það er ágætt að vinna það hægt, þetta batnar með hverjum mánuðinum sem líður. Við förum inn í það öðru hvoru og þetta er að þróast fallega og stefnir í að vera mjög gott sjónvarpsefni, eiginlega ótrúlega gott.

Maður hugsar bara torfbær og kindur en þetta er svo svakalega magnað fjölskyldudrama, þetta verður bara frábært í sjónvarpi held ég, en þetta er líka kvíðvænlegt vegna þess að það liggur við að hver einasti Íslendingur sé með skoðun á þessu verki og á þessum persónum og allir eru með sína mynd af þeim. Ég er búin að fá nokkur bréf með leiðsögn,“ segir Lilja og hlær. „Þannig að það er bókað að það verða ekki allir ánægðir, en þetta er eitthvað sem ég held að sé gott að fólk takist á við.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Lilju í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert