Hæsti vinningurinn lækki en á að ganga oftar út

Lottó
Lottó

Hæstu vinningar í Víkingalottóinu eiga að lækka en jafnframt eiga fleiri vinningar að ganga út en áður þegar breytingar á reglugerð um talnagetraunir Íslenskrar getspár öðlast gildi.

Dómsmálaráðherra hefur kynnt fyrirhugaðar breytingar á leikjaformi Víkingalottósins með birtingu reglugerðar á Samráðsgátt stjórnvalda. Fram kemur að vegna breytinga sem samstarfsþjóðir Víkingalottós hafa ákveðið að gera á uppbyggingu leiksins séu þessar breytingar lagðar til á reglugerðinni hér á landi.

„Er lagt til að framlagi í efstu vinningsflokka verði breytt þannig að 1. vinningur lækki. Þá verði Víkingatölum fækkað úr 8 í 5, en við þá breytingu muni fyrsti vinningur ganga oftar út á hverju ári,“ segir í kynningu ráðuneytisins.

Röðin hækkar úr 100 í 110 krónur

Einnig kemur fram að vegna þessara breytinga og gengisþróunar evru á síðasta ári sé lagt til að verð á hverri seldri röð hækki úr 100 krónum í 110 krónur.

Tölfræðilegar vinningslíkur í efstu vinningsflokkum Víkingalottósins breytast við gildistöku reglugerðarinnar. Líkurnar á hæsta vinningi fyrir sex réttar aðaltölur og Víkingatölu verða 1 á móti 61.357.560. Fyrir fimm réttar aðaltölur verða vinningslíkurnar 1 á móti 12.271.512 og á fimm réttum aðaltölum og Víkingatölu 1 á móti 243.482. Líkur á að vera með fjórar eða þrjár réttar aðaltölur verða óbreyttar.

Víkingalottó hófst hér á landi árið 1993 og er samstarf níu landa að því er fram kemur á vefsíðu Íslenskrar getspár. Hefur fyrsti vinningur komið 28 sinnum hingað til lands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »