Hraunið hækkaði og bar vélina loks ofurliði

Önnur vefmyndavél mbl.is við eldgosið í Geldingadölum er komin undir hraun. Síðustu andartök vélarinnar sýna það hvernig hraunið fyrir framan hana hækkaði stöðugt í um tvo tíma þar til það bar hana loks ofurliði. 

Rétt fyrir klukkan níu í morgun fór samband við vélina að rofna og hún datt alveg út um tveimur tímum síðar. Ljóst er að hraunið hefur hækkað mjög hratt þar sem vélin var upphaflega staðsett um 20 metrum fyrir ofan hraunrennslið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem vefmyndavél mbl.is fer undir hraun því í byrjun apríl mætti önnur vél sömu örlögum.

Enn er þó hægt að fylgjast með gosinu í beinni útsendingu hér á mbl.is, í vél sem virðist vera lífseigari en hinar tvær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert