Mikill stuðningur við blandað kerfi

Könnunin var unnin fyrir BSRB.
Könnunin var unnin fyrir BSRB. AFP

Niðurstöður könnunar sem kynnt var nýverið á fundi BSRB um heilbrigðismál sýndu mikinn stuðning meðal þjóðarinnar við blandaðan rekstur einkaaðila og ríkisins að sögn Þórarins Guðnasonar, formanns Læknafélags Reykjavíkur.

Könnunin var unnin fyrir BSRB og Rúnar Vilhjálmsson prófessor og ályktanir sem aðstandendur könnunarinnar drógu af niðurstöðunum voru að mati Þórarins hæpnar og í sumum tilvikum beinlínis rangar.

Að sögn hans var öll áhersla í kynningu lögð á afstöðu fólks til reksturs sjúkrahúsa og að 81,3% landsmanna vilji að rekstur þeirra sé á hendi ríkisins.

„Það eru flestir sammála um að ríkið eigi að reka sjúkrahúsin og enginn að tala um að stofna einkarekið sjúkrahús. Það er því undarlegt að setja aðaláhersluna á þetta atriði og draga svo ályktanir af því yfir allt heilbrigðiskerfið. Könnunin sýnir þvert á móti að landsmenn styðja fjölbreytt rekstrarform þó að samhljómur sé um að ríkið standi fyrir rekstri sjúkrahúsa. Sjálfstætt starfandi aðilum sé svo greinilega treyst til að sjá um ákveðna hluta t.d. læknastofur og tannlækningar,“ segir hann.

Stuðningurinn verulegur

Þórarinn Guðnason.
Þórarinn Guðnason.

Þórarinn bendir á að ef lögð séu saman svör þeirra sem vilja blandað kerfi í heilbrigðisþjónustunni og þeirra sem vilja fyrst og fremst að einkaaðilar reki þjónustuna svo sem þjónustu sjúkraþjálfara, tannlækna, sjálfstætt starfandi sérfræðilækna á stofu og sálfræðinga þá sé stuðningurinn við það frá 58% upp í 71%. „Þetta er verulegur stuðningur og miklu stærri frétt en að yfir 80% landsmanna styðji það að ríkið reki sjúkrahúsin,“ segir hann.

Þá sé það beinlínis rangt eins og BSRB heldur fram að niðurstöðurnar sýni sáralítinn stuðning við einkarekstur í heilbrigðisþjónustu, þvert á móti virðist sá stuðningur mikill.

Heilsugæslan að talsverðum hluta einkarekin

Hann bendir einnig að á óvíst sé hvort spurningar um rekstur heilsugæslustöðva og hjúkrunarheimila hafi alveg náð að endurspegla afstöðu fólks. Heilsugæslan sé að talsverðum hluta einkarekin og kannanir hafi sýnt mikla ánægju með þær. Í þjónustukönnun sem Maskína gerði í fyrra kom t.d. í ljós að einkareknu heilsugæslustöðvarnar röðuðu sér í fjögur af fimm efsu sætum könnunarinnar.

Velta má því fyrir sér að sögn hans hvort margir þátttakendur í BSRB-könnuninni hafi ekki í raun verið að svara því hvort þeir vildu að ríkið greiddi fyrir þjónustuna fremur en hvort ríkið bæði greiði og annist reksturinn. Það sé t.d. ólíklegt að þau 40,4% sem vilja að tannlækningar fullorðinna séu á hendi ríkisins vilji í raun að komið verði á fót „Tannlæknastofu ríkisins ohf“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert