Búið að bólusetja 177.511

Það var handagangur í öskjunni í Laugardalshöllinni í gær þegar …
Það var handagangur í öskjunni í Laugardalshöllinni í gær þegar um 10 þúsund voru bólusettir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls hafa 177.511 af 295.298 landsmönnum 16 ára og eldri fengið að minnsta kosti eina bólusetningu eða rúmlega 60% þeirra sem eru á aldrinum 16-108 ára.

Nú eru 94.950 fullbólusettir eða 32,2% og 82.561 hefur fengið fyrri bólusetningu eða 28%. 2,2% þeirra sem eru 16 ára og eldri eru með mótefni vegna Covid-sýkingar.

Í þessari viku verða 24 þúsund einstaklingar bólusettir hér á landi. Samtals fá um 14 þúsund bóluefni Pfizer, 9 þúsund fá fyrri bólusetningu en 5 þúsund fá seinni bólusetningu.

Um 5.500 fá bóluefni frá Moderna, þar af 4 þúsund fyrri bólusetninguna. 1.500 skömmtum af AstraZeneca verður dreift á landsbyggðina fyrir seinni bólusetningu og 2.400 fá bólusetningu með bóluefni Janssen.

Ljósmynd/Stjórnarráðið

Handahófskenndar boðanir í bólusetningar hófust á nokkrum bólusetningarstöðum í vikunni en hver heilbrigðisstofnun mun draga út röð árganga og boða. Það ræðst af framboði bóluefna hve hratt gengur á röðina.

‍Langsamlega flestir hafa fengið Pfizer á Íslandi en 65.248 eru fullbólusettir með því bóluefni en bólusetning er hafin hjá 24.350 til viðbótar samkvæmt upplýsingum á covid.is.

AstraZeneca er næst í röðinni en aðeins 7.791 er fullbólusettur með því bóluefni en bólusetning er hafin hjá 52.217. Fullbólusettir með Moderna eru 8.279 og bólusetning er hafin hjá 5.994 til viðbótar. Þar sem Janssen er aðeins ein bólusetning eru allir þeir 13.632 sem hafa fengið það bóluefni fullbólusettir. 

Ef miðað er við höfðatölu þá er hlutfall bólusettra lægst á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum en það eru þéttbýlustu svæði landsins. Flestir eru aftur á móti bólusettir, miðað við höfðatölu, á Austurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert