„Sjúklingar lagðir í hættu“

Öryggi sjúklinga er ekki tryggt. Lífi og heilsu landsmanna er …
Öryggi sjúklinga er ekki tryggt. Lífi og heilsu landsmanna er stefnt í hættu segja bráðalæknar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergur Stefánsson, formaður Félags bráðalækna, segir að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu á bráðamóttöku Landspítalans. Félagið hefur sent frá sér harðorða yfirlýsingu vegna stöðunnar en embætti landlæknis hefur ítrekað gert úttektir á alvarlegri stöðu deildarinnar. 

Að sögn Bergs er hætta fyrir höndum og bráðalæknum þyki þeim bera siðferðisleg skylda til þess að greina satt og rétt frá stöðunni. „Okkur ber fagleg skylda til að faglega sé staðið að þjónustu við bráðveika sjúklinga,“ segir Bergur. 

„Nú þegar og í allt sumar næst ekki skilgreind neyðarmönnun bráðalækna eins og gert er ráð fyrir í verkfalli, þ.e. 7 vaktalínur. Í sumar verða að megninu til 5 vaktalínur, stundum færri. Atvinnurekendur okkar, Landspítali og íslenska ríkið, þvinga okkur og annað heilbrigðisstarfsfólk til vinnu við þessar óviðunandi aðstæður,“ segir í yfirlýsingu bráðalækna.

Þvingað í óeðlilegar aðstæður

Bergur segir að þetta snúist um að tryggja öryggi sjúklinga en með svo alvarlegri undirmönnun sé það ekki hægt. „Ef þú getur ekki tryggt öryggi þeirra þá ertu að leggja þá í hættu,“ segir hann í samtali við mbl.is. 

Hann segir að margt gott fólk sé enn starfandi á bráðamóttökunni sem reyni virkilega að vinna þetta verk. „Það er bara þvingað í þessar óeðlilegu aðstæður,“ segir Bergur og vísar til þeirra reglna sem gildi um opinbera starfsmenn og skyldu þeirra að mæta í vinnu þrátt fyrir undirmönnum og að ekki sé hægt að vinna það starf sem þeir vilji vinna. 

Nú þegar og í allt sumar næst ekki skilgreind neyðarmönnun …
Nú þegar og í allt sumar næst ekki skilgreind neyðarmönnun bráðalækna eins og gert er ráð fyrir í verkfalli, þ.e. 7 vaktalínur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bæði læknar með langa starfsreynslu og nýlega útskrifaðir bráðalæknar hafa yfirgefið bráðamóttökuna undanfarin ár. Bergur segir að fólk sem er með mikinn metnað og hefur brunnið fyrir starfinu í hjarta sínu eftir langt sérfræðinám hafi gefist upp og farið í annað starf innan 5 til 10 ára eftir að það ljúki löngu sérfræðinámi. Ef þú býrð til þær aðstæður að fólk endist ekki í starfi þá verður nýliðunin skammvin,“ segir Bergur. Hann segir að bæði bráðalæknar og fagráð Landspítalans hafi varað við þessu enda vitað frá áramótum hver staðan yrði í sumar á bráðamóttökunni. Viðbrögðin hafi verið óljós en embætti landlæknis, heilbrigðisráðherra og framkvæmdastjórn Landspítala er fullkunnugt um að það stefnir í óboðlegar og óviðunandi vinnuaðstæður á bráðadeild Landspítala í Fossvogi í sumar.

Líkur á alvarlegum tilvikum

„Bráðalæknar, eins og aðrir heilbrigðisstarfsmenn, bera hag sjúklinga fyrir brjósti. Það er algjörlega ljóst að á bráðadeild Landspítala er verið að stofna veikum og slösuðum sjúklingum í hættu með grafalvarlegri undirmönnun. Líkur á alvarlegum atvikum og jafnvel mannslátum í sjúklingaþjónustu eru yfirgnæfandi.

Öryggi sjúklinga er ekki tryggt. Lífi og heilsu landsmanna er stefnt í hættu. Við krefjumst þess að landlæknir sinni sínu lögboðna eftirlitshlutverki af festu og knýi á um tafarlausar úrbætur af hálfu framkvæmdastjórnar og forstjóra Landspítala.

Komi til alvarlegra atvika á bráðadeild sem rekja má til manneklu, ófullnægjandi starfsaðstöðu eða annarra tengdra þátta, vísum við allri ábyrgð á þeim atvikum til forstjóra Landspítala, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem æðsta yfirmanns heilbrigðismála, Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Alþingis sem fer með fjárveitingarvald ríkisins,“ segir í yfirlýsingu sem var samþykkt einróma á aðalfundi Félags bráðalækna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert