„Ég er þessi brjálæðingur úr íslenskum fréttum“

Maður sem fór yfir nýstorknað hraun nærri gíg eldgossins í Geldingadölum hefur birt myndband af glóandi hrauni flæða í átt að honum. Maðurinn átti fótum sínum fjör að launa á föstudag þegar hraun tók að flæða úr gígnum án fyrirvara. 

Vincent Van Reynolds, sem virðist hafa bandarískt vegabréf, hefur nú stigið fram og birt myndband sem hann tók sjálfur af hrauninu flæða í átt að honum. 

„Halló allir. Ég er þessi brjálæðingur úr íslenskum fréttum sem fór upp að gígnum, bara til þess að hlaupa niður þegar straumur hrauns rann af stað,“ skrifar Vincent í Facebook-hópnum Volcanoes. Þá virðist það ekki skipta Vincent miklu að háttsemin hafi verið gagnrýnd töluvert, meðal annars í athugasemdum við myndbandið sem Vincent birti sjálfur. 

„Green Day bjó til lag bara fyrir þig: American Idiot [bandarískur hálfviti]. Núna skil ég,“ skrifar einn Facebook-notandi undir færslu Vincent. 

„Bara aumkunarvert, allt þetta fyrir lélegt myndband. Fljúgðu heim til þín og vinsamlegast haltu þig þar,“ skrifar annar. 

Þá benda margir á að hegðun Vincent geti leitt til þess að aðrir verði sér að voða með því að fylgja háttseminni eftir. 

mbl.is