Fjársjóður í svarta demantinum

Bókin Tvísaga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur vakti gríðarlega athygli þegar hún kom út, en í bókinni sagði Ásdís átakanlega fjölskyldusögu sína. Hún tók þráðinn upp í bókinni Hornauga sem kom út tveimur árum síðar og vinnur nú að þriðju bókinni um ættmenni sín eins og hún rekur í viðtali við Árna Matthíasson í Dagmáli dagsins, sem er aðgengilegt áskrifendum Morgunblaðsins. Hún ræðir einnig um skáldsöguna Ein sem kom út á síðasta ári.

Ásdís segir að þegar hún hafi verið búin að fá upplýsingar um það hver föðurætt hennar væri hafi hún farið að grafast nánar fyrir um hverra manna hún væri. Hún segir að blóðfaðir hennar hafi sagt henni sögur af alls konar fólki og svo hafi hún grúskað í Íslendingabók. Þar rakst hún á ættmenni sem fór til Ameríku og fór að velta því fyrir sér hver það hefði verið. „Ég fór að spyrjast fyrir um hann en fékk bara svör eins og „þetta er bara einhver frændi okkar“, „það var eitthvert vesen á honum“, „það var eitthvað sem gerðist“, sem mér fannst áhugavert; það sem fólk vill ekki tala um er alltaf áhugavert.

Ég fór smám saman að finna einhverjar upplýsingar og fannst það meira og meira spennandi og svo endar það með því að ég fór í miðju Covid til Kaupmannahafnar. Ég var búin að panta fullt af gögnum á bæði Konunglega bókasafninu og á Þjóðskjalasafninu og fór í „Svarta demantinn“ í Kaupmannahöfn, rosalega flottan og virðulegan lestrarsal þar sem verðir standa yfir manni meðan maður er að fletta í gegnum gömul gögn.

Þar sem ég var að skoða þessi gögn fann svo ég hreinlega fjársjóð. Á svona söfnum sitja yfirleitt eldri menn sem eru hættir að vinna og hafa allan tíma í heimi til að blaða í gömlum gögnum, og mig langaði eiginlega að standa upp og kalla upp yfir mig: Vitiði hvað ég fann!, en ég gerði það ekki. Og ég ætla heldur ekki að segja þér það,“ segir Ásdís og hlær.

hér.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert