Útskrifast sem tannlæknir og flugmaður á sama tíma

„ Það vissi enginn af þessu fyrr en ég var …
„ Það vissi enginn af þessu fyrr en ég var búinn með bóklega hlutann hjá Flugskóla Íslands,“ segir Marteinn. mbl.is/Arnþór

Marteinn Þór Pálmason er einn þeirra átta nemenda sem útskrifast sem tannlæknar frá Háskóla Íslands í júní. En hann er ekki hefðbundinn útskriftarnemi, því hann er á sama tíma að útskrifast sem flugmaður.

Segja mætti að áhugi á tönnum sé Marteini í blóð borinn því hann er þriðji bróðirinn til að útskrifast sem tannlæknir. Faðir bræðranna er einnig tannlæknir, auk móðurbróður bræðranna, kærustu elsta bróðurins og föður hennar. Mamma þeirra starfar samhliða föður þeirra sem klínka, eða aðstoðarmaður tannlæknis.

Systir þeirra er sú eina í fjölskyldunni sem fetaði ekki tannlæknaslóðina. „Hún endaði á að fara í lyfjafræði þannig að hún er svarti sauðurinn. Hún flutti til Noregs og er lyfjafræðingur þar. Hún flúði land, nennti ekki að vera í matarboðum,“ segir Marteinn hlæjandi. Hann segir umræður um tennur ósjaldan hafa borið á góma við eldhúsborðið.

Bjó til hópspjall með feðgunum

Marteinn fann strax fyrstu vikuna í náminu að tannlækningar væru fyrir hann. Þá hjálpaði mikið að geta leitað til bræðra sinna og föður og geta fengið góð ráð.

„Ég stofnaði bara hópspjall á Facebook með okkur feðgunum fjórum þannig að ef það var eitthvað sem mig vantaði upplýsingar um þá henti ég því þangað inn, ópersónubundið auðvitað. Þar inni, í því spjalli, er fróðleikur sem þú finnur ekki í kennslubókum. Þannig að maður kemur úr náminu kannski fróðari heldur en gengur og gerist út af því. Maður fékk svo mikla auka vitneskju yfir þennan tíma,“ segir Marteinn.  

Hann ætlaði hins vegar aldrei að verða tannlæknir. Hann hafði farið í inntökupróf í læknisfræði eftir útskrift úr menntaskóla og síðar skráð sig í verkfræði þegar það gekk ekki upp.

Hann segir hugmyndina að verkfræðinni hafa komið frá föður sínum, sem hann segir aldrei hafa ýtt á sig að verða tannlæknir. Hann fann strax að verkfræðin átti ekki við hann og skipti yfir í tannlæknisfræði eftir örfáa daga.

Hvað er það sem heillar við tannlæknastarfið?

„Ætli það sé ekki þetta skapandi frelsi, og sjálfstæðið náttúrulega. Maður er alltaf að fást við eitthvað fjölbreytilegt og læra eitthvað nýtt. Maður er náttúrulega alltaf að hanna eitthvað, hvort sem það er lítil fylling eða krónur, maður vinnur með höndunum og það er svolítið heillandi. Auðvitað líka að aðstoða fólk og hjálpa því.“

Marteinn hlaut hæstu einkunn sem gefin hefur verið á inntökuprófunum …
Marteinn hlaut hæstu einkunn sem gefin hefur verið á inntökuprófunum í tannlæknadeild. mbl.is/Arnþór

Lærði í átján tíma og svaf í sex og varð hæstur

Marteinn gerði sér lítið fyrir á sínum tíma og hlaut hæstu einkunn sem gefin hefur verið á inntökuprófunum í tannlæknadeild. Á hverju ári er mikil aðsókn í námið en aðeins þeir átta sem hljóta hæstu samanlagða meðaleinkunn á prófunum í lok fyrstu annar fá að halda áfram.

Hvernig fer maður að því að ná svo góðum árangri?

„Það er bara að læra öllum stundum. Ég lærði 18 tíma á dag og svaf í sex, það var bara þannig. Ég held að það sé eina leiðin til að komast í gegnum þennan klásus, að gefa sig allan í þetta. Það getur hver sem er náð þessu, það er bara sá sem leggur mest á sig sem kemst í gegnum þetta.“

„Þú þarft ekkert að vera gáfaðastur eða með bestu einkunnirnar úr framhaldsskóla. Bara að þrauka í þessa þrjá mánuði,“ segir Marteinn.

Sagði engum frá flugnáminu

Flugnámið var langþráður draumur sem bjó í Marteini frá æskuárum. Það verður þó að teljast nokkuð óhefðbundið að leggja stund á flug samhliða tannlæknanámi.

„Það voru ekki margir sem mæltu með þessu, þess vegna sagði ég engum frá þessu. Það vissi enginn af þessu fyrr en ég var búinn með bóklega hlutann hjá Flugskóla Íslands. Enginn í bekknum mínum, ekki foreldrar mínir, ekki neinn,“ segir Marteinn.

Hann skráði sig í flugnám þegar hann var á þriðja ári í tannlæknanáminu, sem er samtals sex ár. Hann tímasetti námið þannig að myndi klára bæði námin á svipuðum tíma. 

„Núna er ég að taka síðustu tímana og fæ skírteinið bara í næsta mánuði. Það er eitthvað sem mun verða svona hobbí og eitthvað sem mig hefur alltaf dreymt um að geta gert. Þetta er með því skemmtilegra sem ég geri.“

Það tók þó á að vera í flugnámi samhliða tannlæknanáminu. „Ég held ég hafi sofið svona þriðju hverju nótt þarna á þriðja ári. Þessi tími var mjög strembinn, en skemmtilegur. En ég hugsaði að það væri annaðhvort núna eða ég myndi aldrei gera þetta. Þetta var „now or never“.“

Marteinn segir að á tímabili hafi það verið draumur að vera í hálfu starfi sem tannlæknir og hálfu starfi sem flugmaður. Hann er þó búinn að salta þá hugmynd í bili. „Það er aldrei að vita. Ef maður fær leið á tannlækningum þá er þessi möguleiki fyrir hendi,“ segir hann.

Tannlæknafjölskyldan. Frá vinstri Stefán Pálmason, bróðir Marteins, Pálmi Þór Stefánsson, …
Tannlæknafjölskyldan. Frá vinstri Stefán Pálmason, bróðir Marteins, Pálmi Þór Stefánsson, faðir Marteins, og Víkingur Pálmason, bróðir Marteins. Marteinn situr fyrir miðju myndarinnar. Feðgarnir eru allir tannlæknar.

Draumurinn að opna stofu saman

Marteinn hefur þegar hafið störf sem tannlæknir og skiptir tíma sínum á milli Tannlindar í Kópavogi og Tannheilsu í Skipholtinu, sem elsti bróðir hans rekur.

Þriðji bróðirinn og faðir þeirra starfa í Neskaupstað, þar sem þeir bræðurnir ólust upp. „Það er draumurinn að þeir fari að koma sér suður og að við stofnum stofu saman,“ segir Marteinn.

Þá sinnir Marteinn bráðaþjónustu á Tannlæknavaktinni eina viku í mánuði og heldur úti Instagram-síðunni Tannvefnum, þar sem hann fræðir almenning um tennur og munnhol og tekur á móti nafnlausum fyrirspurnum í anda Vísindavefjarins. 

Hann kveðst fullur eftirvæntingar eftir því að hafa örlítið meiri frítíma núna þegar hann hefur lokið hvoru tveggja náminu. Hann ætlar að nýta hann í samveru með konu sinni, Brynju Ásgeirsdóttur, og 14 mánaða syni þeirra.

„Við erum þriggja manna smáfjölskylda,“ segir Marteinn. Það er það nýja skemmtilegasta sem maður gerir, að vera með honum.“ 

mbl.is