Vagnstjórar hætta að skoða farmiða

Hingað til hefur eftirlit með greiðslu fargjalda verið í höndum …
Hingað til hefur eftirlit með greiðslu fargjalda verið í höndum vagnstjóra. ValgardurGislason,Valgarður Gíslason

Farþegar munu geta stigið inn í almenningsvagna um hvaða dyr sem er án þess að þurfa að sýna vagnstjóra fram á greiðslu fargjalds, þó háð frekari útfærslu. Þetta leiðir af lagabreytingu um fargjaldaálag sem var samþykkt á Alþingi fyrir þinglok. Breytingin skilgreinir einnig betur tímabundna starfsemi erlendra hópbifreiða.

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að það verði háð því hvar skannar verði í vagninum hvar fólk geti gengið inn. Hugmyndin er svo að þegar Borgarlínan verður tekin í notkun verði möguleiki á að greiða á biðstöðinni og ganga svo inn um hvaða dyr sem er.

Fargjaldaálag

Nýju lögin hafa að geyma heimild til að leggja fargjaldaálag á þá einstaklinga sem ekki hafa greitt fargjald í almenningssamgöngum. Álagið getur numið allt að 30.000 krónum. Með þessu er búið að opna fyrir nýtt og skilvirkara fyrirkomulag í tengslum við greiðslu fargjalds og eftirlit með því, sem hefur hingað til verið í höndum vagnstjóra.

Lögin heimila fyrirtækjum sem starfa á sviði almenningssamgangna, vinnslu persónuupplýsinga, að því marki sem talið er nauðsynlegt fyrir greiðslu fargjalda og eftirlit með því. Greiðsla fargjalda hefur í auknum mæli færst yfir í fyrirfram greidd kort eða rafrænar lausnir.

Gestaflutningar

Lagabreytingarnar sem um ræðir eru raunar tvíþættar því þær tímasetja einnig starfsleyfi erlendra hópbifreiðafyrirtækja frá EES-svæðinu með þeim hætti að þau geti aðeins starfað hér í 10 daga í senn á grundvelli erlends starfsleyfis. Er þessi tímabundna starfsemi því skilgreind betur í lögunum eftir breytinguna undir heitinu „gestaflutningar“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert