Litlu munaði að vél rækist í sandara

Betur fór en á horfðist þegar flugvélin TF-FXA rétt flaug …
Betur fór en á horfðist þegar flugvélin TF-FXA rétt flaug yfir sandara á Egilsstaðaflugvelli. mbl.is/Sigurður Bogi

Litlu munaði að flugvél Flugfélags Íslands rækist í sandara, bifreið sem hefur það hlutverk að dreifa sandi yfir brautina, þegar hún kom inn til lendingar á Egilsstaðaflugvelli í febrúar í fyrra.

Fór svo að vélin flaug yfir sandarann, tíu metrum frá honum, að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Stórhríð og skafrenningur var og nánast ekkert skyggni, þegar atvikið varð en samskiptaleysi varð til þess að sandarinn fór út á flugbrautina án þess að ökumaður óskaði eftir leyfi frá flugradíómanni eins og honum bar að gera samkvæmt vinnureglum.

„Af brautinni alveg í hvínandi hvelli“

Þegar vélin kom reif flugradíómaðurinn í talstöðina og kallaði: „Af brautinni alveg í hvínandi hvelli. Vélin er komin. Af brautinni,“ en ökumaðurinn segist ekki hafa heyrt kallið.

Rannsóknarnefndin beinir tillögum í öryggisátt til Isavia innanlands að tryggt verði að aðkoma að sandgeymslu verði möguleg án aksturs um flugbraut, við hönnun og skipulag á akbraut og stæði á Egilsstaðaflugvelli.

Jafnframt er Isavia innanlands beðið að skoða möguleika á að tengja hlustun á fjarskipti flugradíómanns inn á fjarskiptatæki í farartækjum flugvallarþjónustu til þess að auka næmni á aðstæður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert