Af hverju er svona hlýtt á Austurlandi en kalt í borginni?

Frá Neskaupstað. Þar fór hiti mest upp í 21 gráðu …
Frá Neskaupstað. Þar fór hiti mest upp í 21 gráðu í dag. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá mörgum að veðrið hefur ekki verið upp á marga fiska á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga. Allt önnur mynd blasir við á Austur- og Norðausturlandi en þar hefur hiti farið upp í 26 gráður í dag.

Klukkan tvö í dag var 25 stiga hiti á Egilsstöðum og klukkan aðeins átta í morgun var strax kominn 23 stiga hiti á Reyðarfirði.

En hvað veldur þessu? Samkvæmt Páli Ágústi Þórarinssyni veðurfræðingi er um að ræða hnjúkaþey.

Sumar og sól er á Seyðisfirði.
Sumar og sól er á Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Suðvestlægir vindar hafa nú farið yfir fjöllin á hálendinu og borið með sér hitann norður og austur en skýin og kuldinn orðið eftir á Suður- og Suðvesturlandi.

Frá Höfn til Mývatns

„Núna ef maður skoðar gervitunglamynd af landinu þá er hér skýjað og kannski smá súld eða úði eins og var hér áðan og til dæmis er búin að vera þoka við eldgosið,“ segir hann og á við suðvesturhornið. „Svo þegar maður kemur austur fyrir Hofsjökul, fyrir miðju, þá birtir til og þar er sól og yfir 20 stiga hiti á mjög mörgum stöðum,“ segir hann.

Þessu mun svipa til þess sem gerðist sumarið fyrir þremur árum sem lifir sárt í manna minnum og nefnist oft „rigningarsumarið 2018“ en þá baðaði sérhver íbúi Austurlandsins sig í sól daglega meðan himnarnir grétu (og sennilega margur íbúinn) í borginni.

Rigningarsumarið 2018 er mörgum sár minning en þá rigndi mestallt …
Rigningarsumarið 2018 er mörgum sár minning en þá rigndi mestallt sumarið í borginni en sólin skein á austanverðu landinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá gerir spáin ráð fyrir því að þetta verði svipað áfram. „Kannski hátt undir fimm daga,“ segir Páll. Hvort þetta verði áfram svoleiðis er erfitt að segja. Það fari eftir stærri veðrakerfum.

„Við fáum vindinn og veðrakerfin úr vestri þannig að við fáum ekki alveg svona fínt hérna á vesturhelmingnum.“

Kannski maður fari bara norður þá?

„Það er bara að keyra norður, svæðið frá Höfn og meðfram ströndinni og að Mývatni það er alla vega staðurinn til að vera. Að minnsta kosti búið að vera það síðustu þrjá daga og mun líklegast vera það næstu daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert