Benedikt nýr ráðuneytisstjóri

Benedikt Árnason.
Benedikt Árnason. Ljósmynd/Aðsend

Benedikt Árnason hef­ur verið skipaður í embætti ráðuneyt­is­stjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og tek­ur hann við embætt­inu af Kristjáni Skarphéðinssyni. Þetta kem­ur fram í frétta­til­kynn­ingu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Benedikt Árnason lauk cand. oecon-gráðu í þjóðhagfræði frá Háskóla Íslands árið 1990 og meistaragráðu í þjóðhagfræði frá Toronto-háskóla (e. University of Toronto) árið 1991. Árið 1993 lauk hann MBA-gráðu í fjármálum og stefnumótun frá sama háskóla. 

„Benedikt býr yfir mikilli reynslu af störfum innan Stjórnarráðsins og íslenskrar stjórnsýslu. Benedikt hefur innsýn inn í starf ráðuneytisstjóra hvort sem er litið er til reksturs, stjórnunar eða þeirra stjórnsýsluverkefna sem starfinu fylgja. Hann er reyndur verkefnastjóri og hefur haldið vel utan um stór verkefni á vegum íslenskra stjórnavalda,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að Benedikt hafi hafið störf sem einn af aðstoðarframkvæmdastjórum Norræna fjárfestingabankans í Helsinki árið 2005. Árið 2008 tók hann við starfi sem aðstoðarforstjóri Askar Capital fjárfestingabanka hf. og árin 2010 til 2013 var Benedikt aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins. Benedikt hóf störf í forsætisráðuneytinu sem efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar árið 2013 og hefur frá árinu 2016 og fram til dagsins í dag gegnt embætti skrifstofustjóra skrifstofu stefnumála og síðar verið staðgengill ráðuneytisstjóra.

Alls bárust 13 umsóknir um embættið sem var auglýst 1. maí síðastliðinn.

mbl.is