Óttast holskeflu innlagna

Már Kristjánsson.
Már Kristjánsson. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

408 einstaklingar eru undir eftirliti Covid-göngudeildar Landspítalans. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar spítalans, staðfesti í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld að af þeim væru 18 gulmerktir en enginn rauðmerktur.

Samkvæmt litakóða spítalans teljast þeir grænmerktir í kerfum hans sem hafa væg eða engin einkenni kórónuveirunnar þrátt fyrir smit. Þeir sem eru gulmerktir hafa aukin einkenni og rauðmerktir eru með alvarlegri einkenni, s.s. mikil andþyngsli og háan hita.

Hafði staðan á listanum breyst talsvert þegar leið á kvöldið miðað við hádegið í gær. Þá voru 369 manns á listanum. Þar af voru 358 grænmerktir, 10 gulmerktir og einn rauðmerktur. Auk þeirra 408 sem eru undir eftirliti göngudeildarinnar liggja þrír sjúklingar mikið veikir á Landspítalanum.

Enginn í öndunarvél

Aðspurður segir Már að enginn hinna þriggja hafi þurft á aðstoð öndunarvélar að halda. Þeir séu með lungnasýkingar og fái m.a. súrefni til þess að takast á við veikindi sín. Már segir spítalann í þröngri stöðu í aðstæðum eins og þeim sem nú hafi skapast. Þótt starfsmenn hans ráði við aðstæður á þessum tímapunkti séu þær fljótar að breytast. Veldisvöxtur í greiningu smita geti breytt stöðunni mjög hratt og dregið úr getu spítalans til þess að sinna öðrum aðkallandi verkefnum sem ekki hverfi á braut þótt faraldurinn nái sér á strik að nýju.

Már segir að tíðni smita meðal bólusettra hafi verið meiri en búist hefði verið við. Bólusett starfsfólk geti til að mynda borið veiruna inn á spítalann.

„Þá er það allt í einu orðin öryggisógn við okkar starfsemi, ef fólk er með smit inni á spítalanum. Ekki það að við höfum ekki miklar áhyggjur af ungu fólki í sjálfu sér, nema sem farartæki fyrir veiruna í þá sem eru veikir og lasburða. Það er í rauninni áskorunin,“ segir Már.

Óvissa um fjölda smita

Hann bendir þó á að enn sem stendur séu langflestir einkennalitlir af völdum veirunnar og talsvert sé um að fólk sé einkennalaust.

„Flestir sem greinast eru að koma í einkennasýnatökur og sýna því einhver einkenni en svo er hópur sem er kallaður í sýnatöku vegna einhverra tengsla við sýkta einstaklinga og þar greinist fólk sem finnur ekki fyrir neinu.“

Már segir með öllu óljóst hversu útbreitt smitið er í samfélaginu. Það viti einfaldlega enginn.

„Ný rannsókn frá Ísrael bendir til þess að 20% sýktra séu einkennalaus og ef það er reyndin þá erum við sennilega með talsvert af sýktum einstaklingum úti í samfélaginu.“

49.200 lokið sóttkví

Samkvæmt tölum sem birtar voru á vefsíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í gær voru 1.043 í sóttkví í landinu og 1.234 í skimunarsóttkví. 371 sætti einangrun og 76 höfðu greinst með kórónuveiruna daginn áður. Nú hafa 7.054 smit verið staðfest hér á landi og 49.200 manns lokið sóttkví frá því faraldurinn hóf innreið sína í íslenskt samfélag í febrúar 2020.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert