Bjart og þurrt lengst af á höfuðborgarsvæðinu

Veðurblíða á Austurvelli.
Veðurblíða á Austurvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víða verður norðan- og norðaustan átt í dag, 5 til 13 metrar á sekúndu. Lengst af verður þurrt og bjart á suðvestanverðu landinu, en rigning og þokusúld á norðaustanverðu landinu og lítils háttar rigning sums staðar á Suðausturlandinu og á norðvestanverðu landinu fyrri hluta dags, en meira um kvöldið. 

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands að hiti verður 6 til 16 stig, hlýjast á sunnanverðu landinu. Norðlæg átt verður ríkjandi næstu daga og líklega úrkomulítið á suðvestanverðu landinu og hlýnar enn frekar. Dálítil væta verður áfram á austan- og norðanverðu landinu og heldur svalara þar. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Norðlæg átt 3-10 m/s, en 10-15 m/s sums staðar á norðvestan- og suðaustanverðu landinu. Þokusúld eða dálítil rigning með köflum og hiti 7 til 16 stig, en bjartviðri um suðvestanvert landið og hiti 14 til 21 stig.

Á fimmtudag:
Norðlæg átt 3-10 m/s og bjart með köflum um landið sunnanvert. Áfram dálítil væta á Norður- og Austurlandi, en styttir upp þar síðdegis. Hiti 7 til 20 stig, hlýjast sunnan og suðvestan til.

Á föstudag, laugardag og sunnudag:
Norðlæg eða breytileg átt og bjart með köflum. Stöku síðdegisskúrir sunnan til. Hiti 10 til 20 stig, en heldur svalara fyrir norðan.

Á mánudag (frídag verslunarmanna):
Fremur hæg norðlæg átt og líkur á stöku skúrum, en bjart með köflum. Hiti 6 til 16 stig, hlýjast suðvestan til.

mbl.is