Hitinn fari að öllum líkindum yfir 20 stig

mbl.is/Styrmir Kári

Í dag og á morgun verður að mestu hæg norðlæg átt á landinu, en strekkingur með austurströndinni fram eftir degi. Þungbúið verður fyrir norðan og austan með vætu hér og þar, en víða léttskýjað suðvestan til og hiti fer að öllum líkindum yfir 20 stig þar í dag. 

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands að á morgun stefni í bjartviðri víða og hlýni að sama skapi á norðanverðu landinu þar sem hiti gæti jafnvel farið yfir 20 stig á Vestfjörðum og víða á Suður- og Vesturlandi. Útlit er fyrir nokkuð óstöðugt loft á suðvestanverðu landinu svo að síðdegisskúrir eru líklegar í þeim landshluta. 

Um helgina er útlit fyrir ágætisveður um land allt; hægan vind, víða bjart og að mestu þurrt. Hiti verður á bilinu 13 til 18 stig að deginum. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Norðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og bjart með köflum, en líkur á síðdegisskúrum um landið SV-vert. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast á Suður- og Vesturlandi.

Á laugardag:
Hæg breytileg átt eða hafgola og yfirleitt bjart, en skýjað að mestu og úrkomulítið sunnan til. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast inn til landsins.

Á sunnudag:
Breytileg átt eða hafgola og yfirleitt bjart, en skýjað á köflum vestanlands. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast suðvestan til.

Á mánudag (frídagur verslunarmanna):
Hæg breytileg átt, skýjað og dálítil væta sunnan og vestan til, en léttskýjað annars staðar. Hiti 10 til 16 stig.

Á þriðjudag:
Austlæg eða breytileg átt og víða skúrir. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt og vætu með köflum. Kólnar heldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert