„Fallegur dagur í vændum“

Bongó.
Bongó. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Í dag léttir til og hlýnar um allt land. „Fallegur dagur í vændum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands. 

Útlit er fyrir að hæstu hitatölur verði upp undir 25 stig á Suður- og Vesturlandi, en heldur svalara norðaustantil á landinu. Seinni partinn gætu þessar háu hitatölur þó framkallað skúrir suðvestantil. 

Á morgun þykknar upp um landið suðvestanvert og kólnar því þar þegar sólin nær ekki í gegn að hita yfirborið. Ekki er þó útlit fyrir mikla vætu með skýjahulunni. Annars staðar mun sólin þó skína og verma landsmenn. Á sunnudaginn verður áfram sólskin fyrir norðan, en skýjahulan syðra mun eitthvað hefta vegi þess. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag og sunnudag:
Hæg breytileg átt eða hafgola og yfirleitt bjart, en skýjað að mestu um landið sunnanvert og úrkomulítið. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast inn til landsins.

Á mánudag (frídagur verslunarmanna):
Hæg breytileg átt, skýjað og dálítil væta sunnan- og vestantil, en léttskýjað annars staðar. Hiti 11 til 17 stig.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Austlæg eða breytileg átt og víða skúrir, einkum inn til landsins. Hiti breytist lítið.

mbl.is