Líkur á skúrum og jafnvel eldingum

Eldingar.
Eldingar. AFP

Svokallað veltimætti reiknast hátt í veðurspám í dag. Er það vísbending um getu loftsins til að rísa og mynda skúraský, en gildið er upp á rúmlega 800 yfir Suðurlandi klukkan 18. Aðrar spár sýna fram á hærra gildi. Líkur eru á skúrum og jafnvel eldingum, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. 

Í færslu sem Einar skrifar á Facebook kemur fram að mikil óvissa sé um hvort skúraský eigi eftir að myndast, því þótt hitafallið með hæð ýti undir uppstreymi vantar tilfinnanlegan raka til að mynda ský. „Hann er þó til staðar og hafgola inn yfir suðurströndina gæti borið aukinn raka neðan frá. Þá gætu klakkarnir myndast hratt,“ skrifar Einar. 

Einar segir að venjulega sé veltimættið skýr vísbending um eldingaveður á Suðurlandi, en talsvert minni líkur séu á eldingum við þessar aðstæður. Ef af verður myndar uppstreymið klasa fremur en dreifð skúraský. Erfitt er að staðsetja hann, en ef af verður mun helst rigna síðdegis eða í kvöld. 

mbl.is