Segir ekki hægt að bregðast við örtröðinni

Margir þurfa að bíða lengi eftir því að komast út …
Margir þurfa að bíða lengi eftir því að komast út úr flugstöðinni við komu til landsins. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, segir ekki hægt að gera neitt til að bregðast við örtröðinni sem myndast í komusölum flugvallarins.

Mikill fjöldi farþega safnast nú saman á álagstímum í flugstöðinni undanfarnar vikur, bæði í komusal og við innritun.

Við komuna til landsins þurfa farþegar að framvísa bólusetningarvottorði eða fara í sýnatöku og sæta sóttkví. Flestir eru bólusettir og myndast örtröðin vegna þess að tíma tekur að fara yfir vottorðið hjá hverjum farþega.

RÚV greindi frá því í vikunni að farþegar biðu jafnvel í nokkrar klukkustundir eftir því að komast út úr flugstöðvarbyggingunni. Vottorðin eru skoðuð framan við tollinn hjá komusal og því myndast mikil teppa hjá töskubeltunum.

Sóttvarnarreglur gilda ekki í flugstöðinni

Lítið bil er á milli manna og hafa einhverjir lýst áhyggjum af smithættu. Sóttvarnarreglur, svo sem eins metra regla og samkomutakmarkanir, gilda ekki í flugstöðinni samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra.        

Er ekki ástæða til að bregðast við þessu með einhverjum hætti?

„Hverju getum við breytt? Farþegafjöldinn er allt of mikill miðað við það sem er verið að gera og afkastagetuna. Það er bara þannig,“ segir Sigurgeir.

Hann segir skoðunarstöðvum bólusetningavottorða þegar hafa verið fjölgað úr fimm í átján í vor og að ekki sé hægt að koma fleiri stöðvum fyrir.

„Það er ekki hægt að koma fleiri stöðvum fyrir þarna eða nokkurs staðar annars staðar. Þannig að svona er þetta, það er bara of mikið af farþegum miðað við afkastagetuna.“

Þannig að þið sjáið ekki færi á að gera neinar breytingar á þessu?

„Nei. Ekki á meðan þetta eru kröfurnar sem þarf að framfylgja og aðstaðan býður ekki upp á annað.“

Skilur vel áhyggjur fólks

Hann segist skilja vel áhyggjur fólks af því að smitast af Covid-19 í flugstöðinni. Reynt hafi verið að flýta fyrir ferlinu með því að koma skoðun PCR-prófa yfir á flugrekendur erlendis sem skoði þau áður en farþegar fari í flug.

Væri hægt að skila vottorðunum inn fyrirfram í gegnum netið áður en viðkomandi kæmi til landsins?

„Nei, það held ég að gangi aldrei upp. Þú þarft alltaf að tékka á því að sá sem er að ganga út sé búinn að skila vottorði. Þú kemst aldrei hjá því.

En það eru margir komnir með rafræn vottorð sem er þá fljótlegt að skoða, eru með QR kóða í símanum. Þetta er orðið fljótlegra en það var en farþegafjöldinn er bara orðinn svo mikill miðað við þetta pláss sem er til umráða og það sem þarf að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert