Björgunarsveitir kallaðar út við gosstöðvarnar

Frá slysstað á Langahrygg í gær.
Frá slysstað á Langahrygg í gær. mbl.is

Vegfarandi um gosstöðvarnar í Geldingadölum slasaðist í gær ofan á Langahrygg og voru björgunarsveitir kallaðar út til aðstoðar.

Upplýsingafulltrúi Landsbjargar, Karen Ósk Lárusdóttir, segir við mbl.is að ekki sé vitað um meiðsl þess slasaða, en viðkomandi var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús til aðhlynningar. 

Karen segir að aðgerðir björgunarsveita hafi verið umfangsmiklar, eins og tamt er þegar fólk slasast og lendir í sjálfheldu utan alfaraleiðar. Samt sem áður hafi aðgerðir gengið vel og tóku þær ekki langan tíma. 

Frekari upplýsingar gat Karen ekki veitt mbl.is að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert