„Alls ekki of varkár“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tíðni smita er ekki að rjúka upp á við að mati Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis en það er of snemmt að segja til um það hvort ástandið sé svipað eða hvort tölurnar séu að þoka niður á við. Hann segir veikindi réttlæta áframhaldandi aðgerðir. 

Það sé áhyggjuefni hve margir greinast enn utan sótkvíar. Meðalaldur smitaðra er rúmlega 30 ár. Aldurinn hækkar þó þegar litið er til þeirra sem leggjast inn á spítala en þar er meðalaldurinn 50 ár. 

Samkvæmt tölum dagsins á covid.is eru tuttugu og níu inniliggjandi á spítala, þar af fimm á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél. Þórólfur segir það á hreinu að veikindi hér á landi réttlæti áframhaldandi aðgerðir. „Ég held að við séum alls ekki of varkár.“

Af nægu að taka fyrir veiruna

Þórólfur bendir á að það sé mikilvægt að missa ekki tökin á útbreiðslunni frekar. „Það er af nægu að taka fyrir þessa veiru.“ Með frekari útbreiðslu myndi veiran dreifa sér enn meira til bólusettra og óbólusettra sem eru miklu viðkvæmari bæði fyrir smitum og alvarlegum veikindum.

Samkvæmt gögnum sóttvarnayfirvalda eru líkurnar á því að óbólusettir þurfi að leggjast inn á spítala eða gjörgæslu töluvert meiri en bólusettra.

„Með svipuðum hlutföllum og við höfum séð undanfarið sjáum við að ef tíu prósent þjóðarinnar smitast gætum við fengið mörg hundruð manns inn á spítala og tugi eða hundrað á gjörgæslu. Það sér hver maður að kerfið okkar myndi alls ekki ráða við það.“

Þórólfur segir að þetta gæti auðveldlega gerst ef við slepptum öllum takmörkunum, sóttkví og smitrakningu. 

Þolmörk okkar kerfis ekki há

Nágrannalönd okkar virðast sum hver taka Covid-19 af meiri léttúð en við höfum verið að gera síðastliðnar vikur. Þórólfur segist ekki hafa skýringu á því hvers vegna tölur og þróun sé öðruvísi annarsstaðar en það sem skipti máli sé að fylgja þeirri þróun sem við sjáum hér á landi og bregðast við henni. 

Aðspurður segist Þórólfur ekki vita hvort Ísland sé með viðkvæmara heilbrigðiskerfi en þær nágrannaþjóðir sem við berum okkur saman við. Það sé þó greinilegt að þolmörk okkar kerfis séu ekki há.

Túlkar smittölur með varúð

Í gær kom upp bilun í tækjabúnaði hjá veirufræðideild Landspítalans sem sér um greiningu sýna. Þess vegna voru tölurnar sem birtust á covid.is mjög misvísandi, 57 smit. Talið var að smitin yrðu í kringum hundrað en nú liggur fyrir að smitin voru 141. 

Þórólfur segir að svona tölur þurfi alltaf að túlka með varúð því það sé viðbúið að greind smit bætist við yfir nóttina og enn fleiri þegar upp koma örðugleikar eins og þessi bilun. „Þetta er viðkvæm starfsemi svo það má lítið út af bregða.“

Hann er þeirrar skoðunar að þetta sé slæmt fyrir þá einstaklinga sem bíða eftir niðurstöðum en lítið sé við því að gera.

„Þetta eru tvær vélar og hvor þeirra getur annað allt að 4.000 sýnum ef hún er nýtt til fullnustu en þá kemur inn mannafli og annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert