Um þrjátíu á biðlista eftir endurhæfingu

Stefán Yngvason framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.
Stefán Yngvason framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi. mbl.is/Árni Sæberg

Alls hafa 93 verið útskrifaðir úr endurhæfingu á Reykjalundi vegna langvarandi áhrifa Covid-19. Um 30 manns eru nú á biðlista eftir því að komast í endurhæfingu.

Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga hjá Reykjalundi, segir eftirköstin viðtæk; mikil mæða og þreyta eru algengustu einkennin og síðan ýmis önnur óþægindi á borð við verki og týnt lyktar- og bragðskyn.

„Síðan er það sem fólk hefur kallað heilaþoku, sem er eins konar kulnunareinkenni eða mjög líkt þeim. Þar sem fólk á erfitt með að fást við daglegt líf, það fær svona örmögnunartilfinningu og hefur enga orku,“ segir Stefán.

Stefán segir erfitt að meta hve langan tíma bati tekur …
Stefán segir erfitt að meta hve langan tíma bati tekur og segir það mismunandi milli fólks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mismunandi hve langan tíma bati tekur 

Erfitt sé að meta hve langan tíma bati tekur og segir hann það mismunandi milli fólks. Þó virðist sem Covid-19 hafi langvinnari einkenni en aðrir veirusjúkdómar.

„Þetta gerist auðvitað mishratt og hjá sumum tekur þetta langan tíma. Sumir ná sér mjög vel aðrir minna og til þess að fá almennileg svör við þessu verðum við að gera mælingar með viðurkenndum aðferðum og erum í raun og veru í miðri á með það.“

Óljóst hvort bólusetningar hafi áhrif

Hann segir að beiðnum til stofnunarinnar fjölgi í takt við Covid-smit í landinu en ekki sé hægt að sjá hvort bólusetningar hafi einhver áhrif á langvarandi einkenni sjúkdómsins.

„Við vitum þetta ekki, það er hugsanlegt að við förum að sjá það eftir þessa bylgju. Þetta er náttúrlega frekar snúið sérstaklega þegar það er búið að bólusetja gegn ákveðnum afbrigðum af veirunni og síðan kemur nýtt afbrigði, hvar stöndum við þá?“

Stefán bendir á að þau séu ekki að horfa til bólusetninga heldur fyrst og fremst horfa til langvinnandi einkenna og hvort að aðferðir stofnunarinnar gagnist og hvaða aðferðir gagnist best.

Miklar áhyggjur af alvarlegum, samfélagslegum áhrifum

Hann segir endurhæfinguna á Reykjalundi miðast að því að gefa fólki verkfæri til þess að takast á við batann og tími spilar stóran hluta í bata fólks.

„Erlendis er þetta stórt mál. Það eru margir sem lýsa yfir miklum áhyggjum af því að þessi langvinnu einkenni geti haft mjög alvarleg, samfélagsleg áhrif í gegnum það að fólk missi starfsorku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert