Sjö prósent enn þá óbólusett

Frá bólusetningu í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rúmlega 100 manns voru bólusettir við kórónuveirunni á höfuðborgarsvæðinu á hverjum degi í júlí eftir að fjöldabólusetningum í Laugardalshöll lauk 1. júlí samkvæmt upplýsingum frá Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Það voru mest ungir íslenskir nemar sem voru að koma að utan. Svo var einn og einn bólusettur sem hafði gleymt sér. Þannig að þetta var alveg svona opin lína,“ segir Ragnheiður í samtali við Morgunblaðið.

Aðspurð segir Ragnheiður allan gang á því hvaða bóluefni þessir einstaklingar fengu.

„Flestir þeirra sem voru alveg óbólusettir fengu annaðhvort Pfizer eða Janssen en svo voru einhverjir sem áttu eftir að fá seinni skammtinn af AstraZeneca og fengu hann þá.“

Bólusetningar barnshafandi kvenna hófust 29. júlí og hafa um 500 konur þegið boð um bólusetningu fram að þessu, að sögn Ragnheiðar. „Ég held að það sé nokkuð gott hlutfall miðað við að það eru um 2.500 til 3.000 fæðingar á höfuðborgarsvæðinu á hverju ári. Svo spilar alveg inn í að við vildum ekki bólusetja konur sem eru á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar. Þá voru einhverjar sem voru búnar að láta bólusetja sig og aðrar sem eiga enn þá eftir að koma. Þær koma bara til okkar þegar þær eru búnar að eiga eða þegar hentar þeim. Það er alltaf opið hús fyrir þær.“

Óbólusettir velkomnir á Suðurlandsbraut

Hafist var handa við endurbólusetningar skólastarfsfólks strax eftir verslunarmannahelgi og standa þær bólusetningar enn yfir.

„Það hafa verið um 1.000 skólastarfsmenn að koma í örvunarskammt á degi hverjum í ágúst. Við viljum reyna að klára það sem allra fyrst þar sem skólastarf er að hefjast að nýju þessa dagana,“ segir Ragnheiður.

Á mánudaginn eftir helgi munu endurbólusetningar Janssen-þega hefjast. Þeir 53.290 einstaklingar sem bólusettir voru með bóluefni Janssen og hafa ekki sögu um fyrri Covid-sýkingu mega því eiga von á því að fá boð í endurbólusetningu í dag. Þeim hópi mun þá standa til boða að fá örvunarskammt með bóluefni Moderna eða Pfizer.

Þá munu bólusetningar barna á aldrinum 12-15 ára fara fram í Laugardalshöll dagana 24. og 25. ágúst. Foreldrar sem þiggja bólusetningar fyrir börn sín verða beðnir að fylgja börnum sínum í bólusetningu og veita þar með upplýst samþykki fyrir bólusetningunni ásamt því að vera börnunum til halds og trausts. Ef allir þiggja boð um bólusetningu þarf um 35.000 bóluefnaskammta til að fullbólusetja allan aldurshópinn. Miðað við birgðir af bóluefni Pfizer og afhendingaráætlanir bóluefnisins á næstu vikum ætti að vera unnt að ljúka bólusetningum hópsins með síðari bólusetningu í september, að því er greint frá í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins 10. ágúst.

Hér á landi hafa 86,3% einstaklinga 16 ára og eldri verið fullbólusettir en 6,6% eru hálfbólusettir. Rúmlega 7% einstaklinga í þessum aldurshópi eru því enn óbólusett, samkvæmt nýjustu upplýsingum af covid.is.

Ragnheiður hvetur alla þá sem ekki hafa verið bólusettir fram að þessu til að mæta í bólusetningu á Suðurlandsbraut á milli kl. 10 og 15.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert