Vill ekki kynda undir áróðri gegn bólusetningum

Tinna vill ekki að reynsla hennar sé notuð til að …
Tinna vill ekki að reynsla hennar sé notuð til að kynda undir áróðri gegn bólusetningum. Skjáskot/TikTok

Tinna Katrin Owen sem lenti í því að lamast, líklega tímabundið, fyrir neðan mitti og liggur nú á taugadeild Landspítalans, segist alls ekki vera mótfallin bólusetningum gegn Covid-19 og vill ekki að reynsla hennar sé notuð sem dæmisaga gegn bólusetningum. 

Tinna lenti í veikindunum eftir að hún fékk örvunarskammt af bóluefni gegn Covid-19. Það var bóluefni framleiðandans Moderna. Ekki er vitað hvort veikindi hennar megi rekja beint til örvunarskammtsins. 

Tinna birti myndband á samfélagsmiðlinum TikTok í gær þar sem hún greindi frá því að hún hefði lamast tímabundið fyrir neðan mitti eftir að hafa fengið Moderna-örvunarskammt. Hefur hún nú orðið vör við að hreyfingar sem tala gegn bólusetningum séu farnar að nota sögu hennar málstað sínum til stuðnings.

Væntanlega tímabundin lömun

Í samtali við mbl.is segist Tinna hafa farið í segulómun í gær, læknarnir segi að lömunin sé tímabundin og mænan sé í fínu standi.

Tiltekur hún einnig að tveir úr fjölskyldu hennar hafi nú þegar fengið örvunarskammt og hafi þau fundið fyrir litlum sem engum aukaverkunum. 

Mbl.is hafði samband við Lyfjastofnun fyrr í dag og fékk þau svör að engin tilkynning hefði borist þeim þess efnis að Moderna-örvunarskammtur hefði valdið lömun. 

Að sögn Tinnu hefur hún nýlega tilkynnt þessa mögulegu aukaverkun.

Í skriflegu svari Landspítalans við fyrirspurn mbl.is kemur fram að stofnunin geti ekki tjáð sig um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert