27 þúsund króna vinningur varð að 27 milljónum

Báðir vinningshafarnir sem skiptu með sér fjórföldum Lottópotti frá 7. ágúst upp á 54,8 milljónir króna hafa gefið sig fram.

Í tilkynningu frá Íslenskri getspá segir að annar vinningshafinn hafi orðið heldur betur hissa þegar hún ætlaði að sækja 27 þúsund krónur en fór heim með 27 milljónir. Bæði eiginmaður konunnar og starfsmaður á sölustað höfðu lesið upphæðina skakkt. Miðinn var keyptur á Olís í Varmahlíð.

Íbúð og mjólkurhristing

Hinn miðinn var keyptur á N1 á Þingeyri af einstaklingi sem bætti óvænt við lottómiða er hann var að kaupa sér mjólkurhristing. Í tilkynningunni segir að vinningshafinn ætli að kaupa sér íbúð og einn mjólkurhristing til fyrir upphæðina.

mbl.is