Telur rétt að stjórnin hafi vikið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að knattspyrnuhreyfingin sýni að hún líði ekki þá ómenningu sem birtist í kynferðislegri áreitni. Atburðarás síðastliðinna daga snúist hins vegar ekki einungis um persónur heldur viðhorfin.

Mikilvægt fyrir nánast hvert einasta heimili

„Þetta er auðvitað fyrst og fremst birtingarmynd ákveðins viðhorfs, sem er mikilvægt að takast á við innan knattspyrnunnar,“ segir hún.

Það birtist einnig innan annarra geira samfélagsins eins og #metoo-bylgjur síðastliðinna ára hafa leitt í ljós.

„Það skiptir miklu máli fyrir hreyfinguna að takast á við þetta frá grunni og ég tel rétt að stjórnin hafi stigið til hliðar. Þetta er svo mikilvægt fyrir nánast hvert einasta heimili í landinu því við tengjumst flest fótbolta með einhverjum hætti,“ segir Katrín.

Grípa þurfi inn í hjá komandi kynslóðum

Í þessu samhengi nefnir Katrín að stjórnvöld hafi einmitt unnið að réttarbótum gagnvart brotaþolum í kjölfar #metoo, en þar ber að nefna forvarnaáætlun stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi. 

„Við þurfum að takast á við þetta og sjá til þess að viðhorf til kynbundins ofbeldis verði önnur hjá komandi kynslóðum,“ segir Katrín.

Í áætluninni felast meðal annars auknir fjármunir til lögreglu og héraðssaksóknara til að bæta rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála og þróun námsefnis sem stuðlar að forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir framhaldsskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert