Þáttaskil í virkni eldstöðvarinnar

„Það er ólíklegt að það verði eldgos bráðlega,
„Það er ólíklegt að það verði eldgos bráðlega," segir Páll. mbl.is/Sigurður Bogi

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir landris í Öskju marka þáttaskil í virkni eldstöðvarinnar. Askja hefur verið að hjaðna síðustu áratugi og hefur sigið um hátt í metra síðan á áttunda áratugnum að sögn Páls.

„Það er greinilega byrjað landris í Öskju og því fylgir aukin skjálftavirkni. Það er flest sem bendir til þess að þarna sé byrjað kvikustreymi inni í rætur eldstöðvarinnar.“

Landrisið í Öskju er upp á  nokkra sentímetra og segir Páll það var innan þeirra marka sem þekkist frá öðrum eldstöðvum.  

Ólíklegt að gjósi bráðlega

„Það er ólíklegt að það verði eldgos bráðlega; það er oft sem svona stendur í marga mánuði, eða ár, jafnvel áratugi. Það er ekki endilega víst að þetta kvikuinnskot leiði til eldgoss, þetta er vísbending í hvaða ástandi eldstöðin er,“ segir Páll.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. Ómar Óskarsson

Hann bendir á að á tíunda áratugnum byrjuðu kvikuinnskot í Eyjafjallajökli og það var ekki fyrr en í fjórða innskoti sem jökullinn gaus rúmlega fimmtán árum seinna.

„Það geta komið kvikuinnskot sem síðan bara hætta, kvikan storknar og verður hluti af jarðskorpunni. Þetta gerðist í næsta nágrenni við Öskju árið 2007 til 2008, þá var í heilt ár landris í gangi. Þar var innskot djúpt í jarðskorpunni sem náði aldrei upp á yfirborðið og storknaði þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert