Lokanir enn möguleiki þó dregið hafi úr rennsli

Vatn úr Skaftá lónar við þjóðveginn.
Vatn úr Skaftá lónar við þjóðveginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlaupið úr Skaftá hefur enn ekki orðið þess valdandi að vatn flæði yfir þjóðveginn. Hefur því ekki reynst nauðsynlegt að grípa til lokana. Dregið hefur nú úr vexti hlaupsins og er talið líklegt að hámarki hafi bæði verið náð við Sveinstind og Eldvatn. Enn er þó möguleiki á að loka þurfi vegum en vatnið hefur flætt á Eldhraun og lónað við veginn á nokkrum stöðum.

Að sögn Þorsteins Þorsteinssonar, sérfræðings á Veðurstofu Íslands, er gert ráð fyrir að Eystri-Skaftárketill tæmist í dag en talið er að rúmlega 70% af vatninu sé komið fram við Sveinstind. Verulega hefur hægt á rennsli þar en það mældist mest 1.500 rúmmetrar á sekúndu. Er rennslið nú komið niður við 1.100 rúmmetra á sekúndu.

Vegagerðin undirbýr mögulegar lokanir við þjóðveginn.
Vegagerðin undirbýr mögulegar lokanir við þjóðveginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vekur Þorsteinn athygli á að hámarksrennsli við Eldvatn hafi nú að öllum líkindum verið náð en það hafi einungis mælst í rúmum 600 rúmmetrum á sekúndu. Er það 900 rúmmetrum minna en rennslið við Sveinstind.

Að sögn Þorsteins má rekja þennan mun til þess að hluti af hlaupinu fari í Skaftá sem rennur fram hjá Kirkjubæjarklaustri en einnig til þess að heilmikið vatn renni nú út á Eldhraunið.

Vatn úr Skaftá flæðir yfir Eldhraun.
Vatn úr Skaftá flæðir yfir Eldhraun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir hann hegðun hlaupsins óvanalega í ár enda hafi þættir á borð við leysingar, grunnvatnsstöðu og nýlegt hlaup úr Vestari-Skaftárkatli mikil áhrif á hana. Þó svo að rennsli hlaupsins sé nú töluvert minna en árið 2015, þegar vatn rann ekki út á þjóðveg, er enn möguleiki á að það geti nú gerst og að grípa þurfi til lokana.

Mynd tekin við Brest.
Mynd tekin við Brest. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert