Segir afnám lagaákvæðis hafa skert réttindi

Jóhanna Ósk Jónasdóttir, laganemið við HA, mun flytja fyrsta erindið …
Jóhanna Ósk Jónasdóttir, laganemið við HA, mun flytja fyrsta erindið á morgun. Ljósmynd/Aðsend

Réttindi þeirra sem lokið hafa afplánun hafa takmarkast verulega frá því að lagaákvæði um uppreist æru voru afnumin árið 2017 og fékk þessi hópur ekki nægilega umfjöllun á sínum tíma heldur einungis brotaþolar, að mati Jóhönnu Óskar Jónasdóttur, laganema við Háskólann á Akureyri.

Málþing um uppreist æru, afplánun og réttindi borgaranna mun fara fram í Miðborg Háskólans á Akureyri á morgun. Jóhanna skipulagði þingið ásamt þátttakendum og mun hún flytja fyrsta erindi þess „Áhrif afnáms lagaákvæða um uppreist æru“ en hún skrifaði BA-ritgerðina sína um efnið.

Aðspurð kveðst Jóhanna hafa fengið áhuga á efninu því hún fékk þá tilfinningu að ekki hafi verið vandað nægilega vel til verksins, mikil umræða kom upp í samfélaginu sem leiddi til þess að lagaákvæðum um uppreist æru voru afnumin úr almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, árið 2017 en í kjölfarið var farið í heildarendurskoðun á þeim lögum sem uppreist æru hafði áhrif á.

Málþing um uppreist æru, afplánun og réttindi borgaranna mun fara …
Málþing um uppreist æru, afplánun og réttindi borgaranna mun fara fram í Miðborg Háskólans á Akureyri á morgun. Aðsent/HA

„Mér fannst múgæsingur og gagnrýnisraddir á sínum tíma í samfélaginu vera svolítið einhliða þegar upp komst að tilteknir menn hefðu fengið uppreist æru. Þessi ákvæði höfðu þó víðtækari áhrif en voru afnumin á einni nóttu. Þegar einstaklingur fékk uppreist æru þýddi það ekki að brot hans væru þurrkuð út, heldur að hann væri búinn að afplána og hafði sýnt af sér betri hegðun. Þessi lagaákvæði tóku til allra sem hlotið höfðu fjögurra mánaða óskilorðsbundinn refsidóm eða lengri

Ég vil skapa umræðu um þetta því að það virðist vera að þetta hafi ekki verið skoðað út frá öllum hliðum á sínum tíma. Ég held að afleiðingarnar séu aðrar heldur en lagt var upp með. Viljum við, sem samfélag, hjálpa fólki að aðlagast og verða gildir þegnar eða ætlum við að útskúfa fólk alla ævi? Nú eru að koma kosningar og mér fannst áhugaverður tímapunktur að vekja athygli á þessu.“

Ólík sjónarhorn koma fram

Að sögn Jóhönnu munu einstaklingar með ólíka aðkomu að málefninu koma fram á málþinginu. Mun Anna Kolbrún Árnadóttir flytja erindið „Skiptir uppreist æru máli eða var verklagið barn síns tíma?“ en hún sat á Alþingi þegar löggjöfin var samþykkt og tók þátt í atkvæðagreiðslunni.

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari mun flytja erindið „Í hvernig samfélagi viljum við búa?“ þar sem hann veltir upp hugmyndum um hvort við eigum að útiloka fólk eða hjálpa þeim að eiga afturgengt í samfélagið.

Helgi Gunnlaugsson, félagsfræði prófessor við Háskóla Íslands, mun flytja erindið „Skerðing borgaralegra réttinda og ítrekun afbrota“ en hann mun fara yfir niðurstöður rannsókna í afbrotafræði um áhrif skerðingar á margvíslegum réttindum þeirra sem lokið hafa afplánun, þar sem áhersla er lögð á kynferðisafbrotamenn.

Hrannar Hafberg, lektor við lagadeild HA, mun flytja erindið „Útskúfun, lýðræði og missir réttinda“ þar sem hann fjallar um málefnið út frá lýðræðisrökum og kjörgengi einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm.

Tekur fyrir áhrif afnám lagaákvæðanna

Sjálf mun Jóhanna flytja fyrsta erindi málþingsins þar sem hún fer meðal annars yfir niðurstöður BA ritgerðar sinnar en líkt og yfirskrift erindis hennar gefur til kynna fjallaði hún um þau áhrif sem afnám lagaákvæðanna um uppreist æru hafði.

„Ég vildi skoða hvaða áhrif þetta hafði og hvort að réttindi þeirra sem hlotið hafa refsidóm hefðu nú verið skert. Niðurstaða mín var sú að það er ákveðin óvissa hvernig túlka beri lögin, þá hvort refsidómur þurfi að vera óskilorðsbundinn eða hvort skilorðsbundinn refsidómur falli þar undir líka. Áður var meira svigrúm til mats hvort viðkomandi naut trausts ef hann hafði öðlast óflekkað mannorð.

Í mörgum lögum var áður tilgreint að viðkomandi mátti ekki hafa gerst sekur um háttsemi sem gat talist svívirðileg að almenningsáliti, né hafa sýnt af sér háttsemi sem gat rýrt það traust sem hann varð almennt að njóta til að gegna tilteknu starfi. Núna er einungis tilgreint að viðkomandi má ekki hafa hlotið refsidóm eftir 18 ára aldur. Það eru því ákveðin störf sem þeir sem hlotið hafa refsidóm, óháð broti, geta aldrei sinnt á lífsleiðinni miðað við núverandi löggjöf, alveg óháð því hversu langt er um liðið frá því að afplánun lauk.“

Allir eru velkomnir á málþingið svo lengi sem húrsúm og sóttvarnir leyfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert