Aukinn kraftur í skógrækt

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segist gera sér vonir um að á …
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segist gera sér vonir um að á næsta ári fari gróðursetning á ný yfir sex milljón plöntur og aukist síðan enn frekar. mbl.is/Sigurður Bogi

Skógrækt hefur tekið við sér síðustu ár og útlit er fyrir að í ár verði gróðursettar hátt í fimm milljónir plantna. Mest var gróðursett á árunum í kringum hrun, um eða yfir sex milljónir á árunum 2007 til 2009, en síðan kom bakslag. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segist gera sér vonir um að á næsta ári fari gróðursetning á ný yfir sex milljón plöntur og aukist síðan enn frekar.

Í ár og í fyrra var af hálfu stjórnvalda veitt framlag til að kaupa og gróðursetja 500 þúsund birkiplöntur. Það var hluti af aðgerðum í kórónuveikifaraldrinum, en síðustu ár hafa stjórnvöld lagt áherslu á endurheimt birkiskóga. Þröstur segir að gróska hafi almennt verið í ræktunarstörfum síðustu ár, ekki aðeins á vegum Skógræktarinnar, heldur einnig á lögbýlum og á vegum skógræktarfélaga. Nýr þáttur sé síðan að fyrirtæki hafi haslað sér völl á þessum vettvangi og segir Þröstur ljóst að sú starfsemi muni aukast.

Þröstur Eysteinsson.
Þröstur Eysteinsson.

Slík gróðursetning ekki í kortunum

Í vikunni tóku íslensk stjórnvöld svonefndri Bonn-áskorun, en samkvæmt henni er stefnt að aukinni skógarþekju um allan heim. Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir að markmið Íslands um að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú, hafi verið staðfest. Þröstur segir aðspurður að þetta sé metnaðarfullt, en til að ná því að 5% landsins verði þakin birki árið 2030 þyrfti að gróðursetja 117 milljónir plantna á hverju ári. Það sé ekki í kortunum, en að unnið verði að því að leggja grunn að þeirri endurheimt á komandi árum.

Hann fagnar hins vegar þeirri ákvörðun að taka fyrrnefndri Bonn-áskorun, en Skógræktin og Landgræðslan hafi m.a. unnið að undirbúningnum með stjórnvöldum. Ekki eingöngu til að fást við loftslagsbreytingar, heldur líka til að bæta og breyta landnotkun. Það sé verðugt markmið að leggja grunn að 5% skógarþekju á næstu árum, finna lönd og svæði og hefja gróðursetningu.

„Þessi áskorun setur okkur það markmið að stuðla að bættri landnotkun sem leiðir til meiri skógarþekju á Íslandi. Þar með talið að fyrir 2030 verði lagður grunnur að því að í framtíðinni verði 5% af landinu vaxin birki,“ segir Þröstur. Hann leggur áherslu á að í áskoruninni felist mörg markmið önnur en endurheimt birkiskóga, en þau leiði öll til bættrar lífsafkomu fólks.

Breytt landnotkun sé veigamikill þáttur, en nýtingin sé á margan hátt ósjálfbær núna og nefnir Þröstur stjórn beitarmála í því sambandi. „Með skógrækt er m.a. stuðlað að atvinnusköpun, sjálfbærni, bættri landnýtingu og uppgræðslu örfoka lands til skógar og hér á Íslandi verður það eitt af meginmarkmiðunum,“ segir Þröstur.

Ítarlegra viðtal við Þröst má lesa í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »