Varar við sömu leið og Bretar fóru

Vivek Kotecha, endurskoðandi og ráðgjafi á sviði velferða- og heilbrigðismála, …
Vivek Kotecha, endurskoðandi og ráðgjafi á sviði velferða- og heilbrigðismála, flutti erindi á heilbrigðisráðstefnu ASÍ. Ljósmynd/ASÍ

Flest stærri hagnaðardrifin hjúkrunarheimili í Bretlandi hafa á undanförnum árum og áratugum verið holuð að innan með sölu eigna án þess að fjárfest hafi verið í rekstrinum á móti. Miklar skuldir þyngja einnig rekstur þeirra og kerfislæg hætta er til staðar að hið opinbera þurfi að styðja við þau þegar illa árar. Þetta segir Bretinn Vivek Kotecha, endurskoðandi og ráðgjafi í heilbrigðis- og velferðarmálum, en hann hélt erindi í vikunni á heilbrigðismálþingi ASÍ.

Málefni hjúkrunarheimila í Bretlandi eru í nokkuð öðrum farvegi en hér á landi, en Kotecha segir í samtali við mbl.is að lang flest þeirra séu einkarekin og þar af sé stærri hluti hagnaðardrifin félög. Hér á landi eru hins vegar flest heimilin í eigu sveitarfélaga eða einkarekinna sjálfseignastofnana. Hann segir að fjöldi stofnana eða félaga sem reki hjúkrunarheimili í Bretlandi sé mikill, en þróunin undanfarið hafi verið að heimilin færist á færri hendur. Þannig séu 26 eigendur hjúkrunarheimila með 30% af heildarmarkaðinum í landinu. Þrátt fyrir mikla fjölbreytni sé hins vegar staðan oftar en ekki sú að aðeins einn rekstraraðili sé á hverju svæði og val íbúa því lítið vilji þeir vera á heimaslóðum.

Skortur á gegnsæi og ósjálfbær rekstur

Kotecha segir að varast þurfi að fara sömu leið og Bretar, en hann segir helsta vandamálið þar vera skort á gegnsæi í rekstri heimilanna og ósjálfbæran rekstur. Í raun hafi lítið eftirlit verið með hvernig hagnaðardrifin félög hafi rekið heimilin og nú standi mörg höllum fæti þegar kreppi að.

Lýsir hann því sem hann kallar fjármálaleka (e. financial leakage) í rekstri fjölmargra stórra hjúkrunarheimila. Þar á hann við að mörg félaganna greiði háar upphæðir til tengdra  félaga sem hafi keypt fasteignir eða lánað rekstrarfélaginu. „Þessir fjármunir eru fluttir út úr rekstrinum,“ segir Kotecha og bætir við að afkoma flestra rekstrarfélaganna sé nokkuð slæm. Það segi þó ekki alla söguna. „Fjöldi heimila er að ná miklu meiri hagnaði en þau sýna, það vantar allt gegnsæi.“

Tekið há lán og skilið reksturinn eftir innantóman

Spurður nánar út í þessi mál segir Kotecha að lengi vel hafi fasteignir verið lang verðmætasta eign hjúkrunarheimila. Fjárfestingafélög hafi hins vegar mörg hver ákveðið að ráðast í sölu eignanna til þriðja aðila. Í mörgum tilfellum hafi það verið tengd félög sem skráð séu í öðru landi til að ná fram skattahagræði. Þannig fari hið opinbera á mis við háar skattgreiðslur á hverju ári auk þess sem félögin telji að slíkt fyrirkomulag geti lágmarkað lögsóknir.

Nefnir hann dæmi um að með sölu eignanna hafi skapast mikill hagnaður á skömmum tíma hjá fjölmörgum rekstrarfélögum sem hafi í kjölfarið greitt út háar upphæðir í arð en ekki hugað að því að fjárfesta í rekstrinum eða nýta fjármunina í að mæta framtíðar leigugreiðslum sem voru fyrirséðar.

Mörg stærri heimilin hafi á sama tíma stundað uppkaup á öðrum heimilum með tilheyrandi lántöku. Vandamálið við þessa stöðu er að sögn Kotecha að mörg rekstarfélaganna standa illa og hafi nú litlar eignir til að mæta áföllum. „Stærsta vandamálið er að félögin hafa tekið há lán og skilja svo reksturinn eftir frekar innantóman. Það eru ekki miklar eignir og því ekki mikið svigrúm til að takast á við áföll.“

Jafnframt segir Kotecha að heimilin séu kerfislega of mikilvæg til að geta fallið og því sé líklegt að hið opinbera stígi inn í verði staðan erfið og þar með lendi reikningurinn á skattgreiðendum.

Vivek Kotecha segir að passa þurfi upp á að það …
Vivek Kotecha segir að passa þurfi upp á að það séu langtímafjárfestar sem komi að rekstri hjúkrunarheimila ef fara eigi í frekari einkarekstur þar. Þá þurfi gegnsæi að vera mikið og passa að félögin séu ekki strípuð af eignum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Enginn vill kaupa

Kotecha segir að stærstu félögin í þessum geira hafi öll verið til sölu undanfarin ár. Áhuginn á að kaupa sé hins vegar ekki mikill þar sem verðmætin séu að mestu farin. „Enginn vill kaupa heimilin því eigendurnir hafa náð því sem þeir vilja út úr félögunum.“

Kotecha vann nýlega úttekt á stöðu hjúkrunarheimila í Bretlandi og segir hann að þar hafi komið í ljós mikill munur annars vegar á einkareknum hjúkrunarheimilum sem eru rekin í hagnaðarskyni og þeim sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Segir hann að þau óhagnaðardrifnu hafi jafnan verið mun varkárari varðandi allar fjárfestingar, lántöku og síður selt eignir. Þar með standi þau nú betur en þau hagnaðardrifnu þegar kom til erfiðleika vegna faraldursins, en breska ríkið endaði með að setja umtalsverða fjármuni inn í hjúkrunarheimilin vegna tekjusamdráttar.

„Passa að félögin séu ekki strípuð niður

Segir hann stöðuna núna sérstaklega slæma þegar horft sé til þess að breska þjóðin sé að eldast hratt eins og víða annarsstaðar. Á sama tíma séu sveitarfélögin mörg í erfiðleikum og ekki vel í stakk búin til að grípa hjúkrunarheimilin ef illa fari.

Spurður út í hvaða ráð hann gefi varðandi framtíðar málefni hjúkrunarheimila segir Kotecha: „Frá því á níunda áratugnum höfum við í Bretlandi leyft næstum því hverjum sem er að reka heimilin og einkafjárfestum hefur fjölgað mikið, en þar vantar oft mikið upp á gegnsæi í fjármögnun og fjármálum auk þess sem það er oft ekki langtímafjárfesting. Ef þið ákveðið að fara þennan veg [innsk blm: í átt að auknum einkarekstri] þurfið þið að passa að það séu langtímafjárfestar og að gegnsæið sé mikið. Og sérstaklega að passa að félögin séu ekki strípuð niður af eignum af eigendunum.“

mbl.is