Villtist á Esjunni

Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í …
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Lögregla kallaði björgunarsveit út til leitar að manni sem var villtur á Esjunni í gær en mjög vont veður var á svæðinu.

Maðurinn fannst rúmlega tveimur og hálfum tíma eftir að aðstoðarbeiðni barst og komu björgunarsveitir honum til byggða, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Maður var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna þjófnaðar. Hann var í mjög annarlegu ástandi og verður tekin skýrsla af honum þegar ástand hans lagast.

Ekið á gangandi vegfaranda

Ekið var á gangandi vegfaranda í miðbæ Reykjavíkur og viðkomandi flutt á bráðamóttöku með sjúkrabifreið þar sem hún var með áverka á fæti og mjöðm.

Ekið var á kyrrstæða bifreið í hverfi 105 í Reykjavík. Einn slasaðist og var hann fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabíl en ekki er vitað hversu alvarleg meiðslin voru.

Féllu á höfuðið

Ofurölvi maður féll á höfuðið í Breiðholti. Hann var með áverka á höfði eftir fallið og var fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabíl.

Lögregla aðstoðaði mann sem hafði dottið á höfuðið í hverfi 220 í Hafnarfirði. Eftir að sjúkraliði hafði gert að sárum mannsins ók lögregla honum heim til sín.

Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og ók á ljósastaur í Kópavogi. Engin slys urðu á fólki en bifreiðin er óökufær eftir óhappið.

Líkamssárás og heimilisofbeldi

Maður var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna líkamsárásar og heimilisofbeldis á Kjalarnesi.

Ökumaður ók bifreið sinni út af á Kjalarnesi en hann slasaðist ekki.

Kona féll á rafmagnshlaupahjóli í Grafarvogi og hlaut áverka á höfði. Hún var flutt á bráðamóttöku með sjúkrabifreið.

Tvær bifreiðar rákust saman í hverfi 221 í Hafnarfirði. Ekki er vitað um slys.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert